Fótbolti

Yfir 200 knattspyrnumenn missa af leiknum á morgun: „Þetta er alveg skelfilegt“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Álftanes vann 4. deildina síðasta sumar. Leikmenn liðsins missa af landsleiknum á morgun.
Álftanes vann 4. deildina síðasta sumar. Leikmenn liðsins missa af landsleiknum á morgun. vísir/daníel
Fjöldinn allur af íslenskum knattspyrnumönnum og konum missir af fyrri hálfleik eða öllum leik Kasakstan og Íslands í undankeppni EM 2016 á morgun.

Strákarnir okkar hefja leik klukkan 15.00 að íslenskum tíma á gervigrasinu í Astana, en á svipuðum tíma fara fram fjórir leikir í C-deild Lengjubikars karla og tveir í C-deild Lengjubikars kvenna.

Leikmenn Álftaness og KFR koma verst út úr þessu hjá körlunum líkt og lið Hamranna, Völsungs, Víkings Ólafsvíkur og Grindavíkur hjá konunum. Þau munu missa af öllum leiknum.

Þrír leikir í C-deild karla hefjast klukkan 14.00 og munu þau lið ná seinni hálfleik ef þau drífa sig heim eða inn í félagshús.

Markavélin Andri Janusson missir af leiknum.vísir/daníel
Í heildina fara fram sex fótboltaleikir á svipuðum tíma og strákarnir okkar spila. Það eru tólf lið og ef öll mæta með fullan leikmannahóp er um að ræða  216 leikmenn.

Einn leikur átti að fara fram í A-deild Lengjubikarsins á morgun á sama tíma og landsleikurinn. Það er viðureign Vals og Þórs í Egilshöllinni, en mönnum hefur tekist að færa hann til klukkan 13.00.

„Þetta er alveg skelfilegt,“ segir Pétur Ásbjörn Sæmundsson, leikmaður Álftaness, við Vísi. „Maður vill auðvitað sjá leikinn en svona er þetta.“

Vanalega þegar landsliðið spilar liggur íslenskur fótbolti meira og minna í dái en erfitt getur verið að færa til leiki á undirbúningsmótunum.

„Þetta kemur svolítið á óvart samt. Ég skil ekki af hverju leikirnir eru ekki færðir fram eða afur um nokkra klukkutíma. Leikurinn verður bara spilaður. Það er ekkert hægt að gera í þessu.“

Pétur býst ekki við að menn fari allt í einu að hrynja niður í meiðsli í kvöld. „Nei, þetta er ekki svo alvarlegt,“ segir hann og hlær við. „Það vilja samt allir sjá leikina þannig þetta er voða spes,“ segir Pétur Ásbjörn Sæmundsson.

Leikirnir á morgun:

Karlar:

15:30 Álftanes - KFR

14:00 Árborg - Kormákur/Hvöt   

14:00 Hvíti riddarinn - Elliði

14:00 Vatnaliljur - Stokkseyri

Konur:

14:45 Hamrarnir - Völsungur

15:00 Víkingur Ó. - Grindavík


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×