Innlent

Yfir 100 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur í Breiðholtinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan er nú með sérstakt umferðareftirlit þar sem grunnskólarnir eru að byrja.
Lögreglan er nú með sérstakt umferðareftirlit þar sem grunnskólarnir eru að byrja. vísir/Anton brink
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var við hraðaeftirlit í Breiðholtinu í dag, annars vegar í Austurbergi og hins vegar í Norðurfelli, en helmingur þeirra bíla sem fóru um göturnar ók of hratt.

Í Austurberginu var fylgst með ökutækjum sem óku í suðurátt til móts við Hólabrekkuskóla en eftirlitið var í eina klukkustund fyrir hádegi í dag. Af þeim 114 bílum sem fóru þarna um voru 57 ökumenn myndaðir við brot, eða helmingur allra sem fóru um götuna.

30 kílómetra hámarkshraði er í götunni en meðalhraði þeirra sem óku of hratt voru á 43 kílómetra hraða að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni. Sá sem hraðast ók var á 57 kílómetra hraða.

Þá voru brot 55 ökumanna mynduð í Norðurfelli en fylgst var bílum sem ekið var í vesturátt við Gyðufell. Á einni klukkustund eftir hádegi í dag fóru 111 ökutæki um götuna og var því helmingur ökumanna yfir leyfilegum hámarkshraða sem er 30 kílómetrar á klukkustund.

Meðalhraði þeirra sem óku of hratt í Norðurfelli var 45 kílómetrar á klukkustund en sjö óku á 50 kílómetra hraða eða meira og sá sem hraðast ók mældist á 59 kílómetra hraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×