Fótbolti

Xavi: Viljum hitta ykkur öll aftur í Barcelona sjöunda júní

Anton Ingi Leifsson skrifar
Börsungar hylla Xavi.
Börsungar hylla Xavi. vísir/getty
Xavi, miðjumaður Barcelona og einn besti miðjumaður Spánar undanfarin ár, hefur spilað sinn síðasta deildarleik fyrir Barcelona. Síðasti leikur Xavi var í gær þegar Barcelona gerði 2-2 jafntefli við Deportivo í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar.

Xavi kveður nú Barcelona eftir 24 ár hjá félaginu, en þessi 35 ára gamli leikmaður gengur nú í raðir Al Sadd í Katar.

„Ég er ánægðasti maður í heimi í dag og öll þessi sautján ár sem ég hef verið hér. Eins og stjórinn, Luis Enrique, sagði þá er þetta ekki búið,” sagði Xavi.

Sjá einnig: Sjáðu mörkin, heiðursskiptingu Xavi og bikarafhendinguna

Spænski miðjumaðurinn hefur þó líklega ekki spilað sinn síðasta leik fyrir Barcelona. Barcelona spilar við Atletico Bilbao um næstu helgi í úrslitaleik spænska bikarsins og helgina þar á eftir spila þeir við Juventus í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

„Við viljum vinna þessa tvo bikara enn sem í boði eru og við viljum vera hér aftur með ykkur öllum í Barcelona þann sjöunda júní,” en það er daginn eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar og vonast Xavi eftir að fagna með stuðningsmönnum Barcelona daginn eftir úrslitaleikinn.

Þessi magnaði miðjumaður hefur spilað rúmlega 500 leiki fyrir Barcelona og skorað í þeim 58 mörk. Hann spilaði einnig 133 leiki fyrir Spán og skoraði í þeim tólf mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×