Innlent

WOW og Icelandair losa eins og álverin

Sveinn Arnarsson skrifar
Flugfloti íslensku flugfélaganna WOW og Icelandair losar jafn mikið magn gróðurhúsalofttegunda í ár og álverin hér á landi. Með sívaxandi straumi ferðamanna hingað til lands er líklegt að fyrirtækin tvö muni losa meira en álverin í komandi framtíð.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, spurði umhverfisráðherra út í magn útblásturs gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum flugfélögum. Þar kemur fram að samkvæmt gögnum frá Eurocontrol losa íslensk flugfélög 0,0154 tonn af koldíoxiði á hvern floginn kílómetra. Íslensku flugfélögin tvö fljúga um 85 milljón kílómetra á þessu ári og því eru um háar tölur að ræða.

Bjarkey Olsen ?Gunnarsdóttir, þingkona Vinstri grænna
Fram kemur í svari umhverfisráðherra að samkvæmt Kýótó-bókuninni bera einstök ríki ábyrgð á losun frá innanlandsflugi, en ekki frá millilandaflugi eða millilandasiglingum. Einnig segir að í losunarbókhaldi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er millilandaflug ekki undir skuldbindingum einstakra ríkja.

Bjarkey segir það mikilvægt í ljósi stöðunnar að skoða hvað íslensk stjórnvöld geta gert til að minnka vistspor sitt og því þurfi líka að huga að samgöngum til og frá landinu. 

„Þetta helst svo í hendur við annað sem við erum að skoða, í sambandi við nýgerða búvörusamninga og innflutning hingað til lands. Það er keppikefli okkar að minnka útblástur okkar og ýta undir umhverfisvænni leiðir. Árif gróðurhúsalofttegunda eru að koma fram núna og það hefur mikil áhrif bæði hér á landi og annars staðar,“ segir Bjarkey.

Sigrún Magnúsdóttir tekur ágætlega í hugmyndir þess efnis að kolefnisjafna flug til og frá landinu með einhverjum hætti. „Kolefnisjöfnun vegna flugferða sérstaklega gæti verið útfærð í samvinnu við flugfélög sem mörg bjóða upp á kolefnisjöfnun gegn aukalegri greiðslu. Fjölmargir erlendir aðilar bjóða upp á kolefnisjöfnun, en einungis einn íslenskur aðili að því er ráðuneytið veit best, þar sem kaupendum býðst að fjárfesta í skógrækt sem bindur jafn mikið magn koldíoxíðs úr andrúmslofti og nemur losuninni,“ segir í svari hennar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18 júni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×