Viðskipti innlent

WOW býður Bretum sem setjast að á Íslandi ókeypis flug

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
WOW air flýgur frá þremur stöðum á Bretlandi.
WOW air flýgur frá þremur stöðum á Bretlandi.
Bretar sem vilja flytja til Íslands fyrir 1. október næstkomandi geta fengið flugfarið ókeypis í boði WOW air. WOW flýgur til Íslands frá þremur stöðum á Bretlandi; London, Edinborg og Bristol.

„Við vildum sýna hversu gestrisnir Íslendingar eru í raun, og fannst þetta skemmtileg og öðruvísi leið til að gera það,“ sagði Skúli Mogensen, framkvæmdastjóri WOW Air, í samtali við Travel and Leisure.

Þeir Bretar sem vilja nýta sér tækifærið þurfa að hafa ætlanir um að búa hér á landi í að minnsta kosti eitt ár, og þurfa að veita sönnun fyrir því að þeir ætli að taka hér upp búsetu, með leigusamningi, íslenskri kennitölu eða bréfi sem sýnir samþykki um inngöngu í íslenskan skóla.

Umsækjendur geta sent þessar upplýsingar á MovingToIceland@wow.is. Ef allar upplýsingar reynast réttar fá þeir flugið endurgreit að fullu. Einnig þurfa umsækjendur að veita bókunarupplýsingar og mynd af vegabréfi sínu.

Samkvæmt Svönu Friðriksdóttur, almannatengli WOW air, opnaði flugfélagið fyrir umsóknir í síðustu viku. „Það hafa nokkrir nýtt sér þetta. Ekki mjög margir, en nokkrir hafa haft samband,“ segir Svana í samtali við Vísi.

„Við vildum reyna að vekja athygli á Íslandi og WOW air á skemmtilegan hátt. Það var það sem við lögðum upp með,“ segir Svana. „Allir Bretar sem hafa áhuga á að flytja hingað eru velkomnir til landsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×