Viðskipti innlent

WOW air tekur í notkun tvær nýjar vélar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Nýju vélarnar eru sagðar sparneytnari en eldri vélar og menga umtalsvert minna.
Nýju vélarnar eru sagðar sparneytnari en eldri vélar og menga umtalsvert minna. Mynd/Baldur Sveinsson
WOW air hefur tekið í notkun tvær nýjar Airbus A320 vélar af árgerð 2010. Önnur vélin kom fyrir helgi en hin vélin í dag. Hún flaug lágflug yfir Reykjavík um kl. 16.30.

„Þetta eru nýrri vélar en við höfum verið með, sem er hið besta mál," segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air, en fyrir eru tvær eldri Airbus-vélar að fljúga fyrir WOW.

„Við erum að auka sætabilið núna með tilkomu þessara véla. Við höfum verið með 180 sæti en við tókum eina sætaröð út og aukum þar með þægindin enn frekar um borð í vélinni með 174 sæti."

Skúli segist ánægður með stundvísistölurnar og segir þær meðal annars til komnar vegna þess að félagið sé með nýjasta flotann. Nýju vélarnar eru sagðar sparneytnari en eldri vélar og menga umtalsvert minna.

Í sumar mun WOW air bjóða upp á aukna tíðni til London og Kaupmannahafnar. Félagið mun fljúga til London 13 sinnum í viku og Kaupmannahafnar 10 sinnum í viku. Sumaráætlun félagsins verður til fjórtan áfangastaða í Evrópu: London, Kaupmannahafnar, Parísar, Amsterdam, Barcelona, Mílano, Lyon, Zurich, Stuttgart, Düsseldorf, Berlínar, Alicante, Vilníus og Varsjár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×