Lífið

World Class hjónin á bakvið Ungfrú Ísland: Fanney með yfirumsjón

Guðrún Ansnes skrifar
Fanney hefur nóg að gera við að miðla reynslu sinni til þeirra stúlkna sem koma til með að feta í fótspor hennar og taka þátt í keppninni.
Fanney hefur nóg að gera við að miðla reynslu sinni til þeirra stúlkna sem koma til með að feta í fótspor hennar og taka þátt í keppninni.
„Við munum gera hlutina öðruvísi í ár og einblína á undirbúning fyrir stóru keppnirnar, Miss World og Miss Universe, góðgerðarstörfin og þess háttar,“ segir Fanney Ingvarsdóttir, fyrrum ungfrú Ísland sem hefur nú tekið að sér að hafa yfirumsjón með keppninni.

Fanney telur keppnina í ár verða hina glæsilegustu og að mikill metnaður verði lagður í undirbúning keppenda, en í þetta skiptið verði farið að danskri og sænskri fyrirmynd, þar sem úrslitakvöldið er meira í tískusýningarstíl og tónlistaratriðum fremur en dansatriðum keppenda eins og hefur tíðkast. Að auki verði brugðið út af vananum og keppnin haldin í Hörpu, en ekki á Broadway líkt og í fjöldamörg ár.

Gagnrýnisraddirnar

Aðspurð um gagnrýni sem keppnir sem þessar hafa sætt undanfarin ár segist Fanney vissulega skilja sumt sem þar hefur komið fram. „En fólk er fljótt að dæma og tala um eitthvað sem það kannski þekkir ekki endilega. Ég hef sjálf farið í gegnum þetta ferli, sé ekki eftir neinu, og sé alls ekkert slæmt við að taka þátt í svona keppnum,“ útskýrir hún, og bendir á, máli sínu til rökstuðnings, að vinsælt sé að keppa í allskyns bikiní-fitness hér á landi, og það minnst tvisvar á ári.

Segir Fanney jafnframt að ástæða þess að keppnin hafi fallið niður í fyrra hafi einungis verið vegna eigendaskipta á keppninni, en ekki áhugaleysis. En þau Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir, kennd við World Class, keyptu keppnina í fyrra og standa nú á bak við herlegheitin. Mun skráning hefjast í lok vikunnar og geta þá stúlkur á aldrinum 18-24 ára skráð sig til leiks.

Ekki nóg að vera falleg

Stundum er talað um að fegurð sé afstæð, en geta allir verið með í svona keppnum? „Þetta snýst ekki bara um að vera fallegust, heldur skiptir margt máli, persónuleiki, útgeislun og hvort viðkomandi er fær um að höndla verkefnin sem koma til með að taka við. Að svo stöddu höfum við ekki sett niður neinar reglur um útlit,“ útskýrir hún.

Varðandi framboð keppenda segist Fanney ekki hafa áhyggjur.

„Ég er búin að senda á nokkrar sem mér líst vel á til að sjá hvernig stemningin er og hef fengið virkilega góð viðbrögð,“ svarar Fanney, spurð um hvort eftirspurnin sé mikil. „En ef engin sækir svo um, þá verður engin keppni, það segir sig sjálft,“ bætir hún lauflétt við í lokin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×