Viðskipti innlent

World Class hagnast um hálfan milljarð

ingvar haraldsson skrifar
Björn Leifsson á tæplega fjórðungshlut í Laugum ehf.
Björn Leifsson á tæplega fjórðungshlut í Laugum ehf. vísir/gva
Laugar ehf., sem rekur líkamsræktarstöðvar World Class, hagnaðist um 533 milljónir króna árið 2014, sem er margfaldur hagnaður miðað við árið 2013 þegar hagnaðurinn nam 26,8 milljónum króna.

Hinn aukni hagnaður skýrist að stærstum hluta af því að Landsbankinn lækkaði erlent lán félagsins um 468 milljónir króna í kjölfar endurreiknings.

Í ársreikningnum kemur fram að hlutafé hafi verið keypt í tveimur félögum á árinu, helmingshlutur í veitingastað Joe and the Juice í Laugum og 4,42 prósenta hlutur í DV sem metinn var á 8,2 milljónir króna.

Stærstur hluti tekna Lauga var vegna sölu aðgangskorta og nam hún 1,77 milljörðum króna á síðasta ári en aðrar tekjur 20 milljónum króna. Rekstrargjöld Lauga námu 1,4 milljörðum og þar af var launakostnaður helmingur en 82 ársverk voru unnin hjá fyrirtækinu.

Eigið fé nemur 472 milljónum króna, skuldir 3,1 milljarði króna og eignir 3,6 milljörðum króna. Handbært fé félagsins hækkaði um 22 milljónir króna milli ára og nemur 31 milljón króna.

Eigendur Lauga eru Hafdís Jónsdóttir, sem á 48,8 prósenta hlut í Laugum, Björn Leifsson, sem á 24,4 prósenta hlut, og ­Sigurður Júlíus Leifsson, sem á 26,8 prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×