Erlent

Woodward og Chomsky í „bókahillu Bin Laden“

Bjarki Ármannsson skrifar
Osama bin Laden var leiðtogi al-Kaída samtakanna.
Osama bin Laden var leiðtogi al-Kaída samtakanna. Vísir/AP
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa gerð opinber skjöl, og birt á netinu, sem þau segja hafa fundist í leynilegu byrgi hryðjuverkamannsins Osama bin Laden við áhlaup í Pakistan árið 2011. Bin Laden, leiðtogi al-Kaída samtakanna, var drepinn í áhlaupinu.

Skjalasafnið, sem bandarísk yfirvöld hafa kallað „bókahillu bin Laden,“ innheldur sendibréf og önnur skrif, bæði á arabísku og ensku, um ýmsar aðgerðir al-Kaída.

Einnig voru í byrginu bækur á ensku eftir Bandaríkjamennina Bob Woodward og Noam Chomsky, sem báðir hafa gagnrýnt utanríkisstefnu Bandaríkjanna harðlega. Bókin Obama‘s Wars eftir Woodward, sem fjallar um aðgerðir Bandaríkjanna í Írak og Afganistan, var í safninu en hana hvatti bin Laden Bandaríkjamenn til að lesa í myndbandsskilaboðum árið 2011.

Yfirvöld í Bandaríkjunum segja að skjölin hafi verið vandlega skoðuð áður en þau voru gerð opinber. Að því er BBC greinir frá, gæti verið að fleiri skjöl og bækur úr safninu líti dagsins ljós á næstunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×