Enski boltinn

Willum Þór: Snúin staða hjá mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Willum Þór Þórsson tók við liði KR þann 26. júní af Bjarna Guðjónssyni en liðið var þá aðeins með níu stig eftir jafn marga leiki, í níunda sæti deildarinnar.

Willum Þór, sem starfar einnig sem Alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn, hefur ekki gert upp hug sinn hvort hann vilji halda áfram eða ekki.

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það. Í raun og veru hef ég ekki rætt það við neinn,“ sagði Willum við íþróttadeild í dag.

„KR-ingar virða það við mig hver staða mín er. Það er þegjandi samkomulag um að vera ekkert að velta þessum hlutum fyrir sér.“

Eftir að Willum tók við KR hefur liðið unnið sjö af ellefu deildarleikjum og á nú þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu góðan möguleika á að koma sér upp í Evrópusæti.

Hann veit ekki hvernig hann muni bregðast við, ef KR-ingar sækist eftir því að halda honum sem þjálfara liðsins.

„Þetta er snúin staða. Ég er í öðru sæti á lista Framsóknarmanna í suðvesturkjördæmi og kosningar 29. október. Þá verður örugglega búið að ráða þjálfara í öll lið í deildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×