Fótbolti

Willum: Við erum með betra fótboltalið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Willum hvetur sína menn áfram í kvöld.
Willum hvetur sína menn áfram í kvöld. Vísir/Eyþór
Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, stýrði liði sínu í fyrsta sinn í kvöld í ágætum 2-1 sigri KR á n-írska liðinu Glenavon í forkeppni Evrópudeildarinnar. Var hinn nýbakaði, en reynslumikli þjálfari, þokkalega ánægður með leik sinna manna en hefði þó kosið fleiri mörk.

„Spilið í liðinu var gott. Við vorum ákveðnir í því að láta spilið ráða og spila hratt. Það gerir þeim lífið erfiðara, það tókst á köflum mjög vel og það eina sem vantaði var að skora fleiri mörk,“ sagði Willum Þór.

Ljóst var á leik Glenavon að liðið var ekki í sínu besta formi en leikmenn þess sóttu þó grimmt í föst leikatriði og voru mjög aðgangsharðir í þeim. Sást það greinilega að Willum leið ekkert sérstaklega vel þegar gestirnir stilltu upp í horn og aukaspyrnur og kallaði hann mikið á sína leikmenn á meðan þeim stóð.

„Það er svo mikilvægt að halda einbeitingu í föstu leikatriðunum. Þegar maður er orðinn ákafur í að skora þriðja markið þá eiga menn það til að gleyma sér. Ef ég næ eyrum eins er það þess virði. Þetta hjálpar svo manni sjálfum að vera lifandi í leiknum.“ sagði Willum um föstu leikatriðin. Sigurinn var langþráður enda sá fyrsti síðan í maí og er Willum bjartsýnn á framhaldið.

„Þetta er gott fótboltalið og það eru mikil gæði okkar liði. Við vildum sýna það í kvöld og mér fannst það skína úr andlitum okkar að við vildum sigur. Við náðum í sigurinn og erum kátir með það. Þetta gefur okkur aukna trú núna í framhaldinu,“ sagði Willum sem var þó svekktur með að fá á sig útivallamarkið.

„Svona hlutir gerast, við verðum bara að setja það á þá á móti í útileiknum. Við erum með betra fótboltalið og ef við gírum okkur vel í þeirra leik þá erum við með gæðin til þess komast áfram.“

Liðin spila aftur eftir slétta viku á Mourneview Park í Lurgan í Norður-Írlandi, þann 7. júlí. Liðið sem hefur betur í þessum tveimur viðureignum mætir svo Grass­hop­p­ers frá Sviss í annnarri umferðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×