Erlent

WikiLeaks birtir gögn úr Sony lekanum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Julian Assange segir að gögnin eigi að vera opinber almenningi vegna stöðu Sony.
Julian Assange segir að gögnin eigi að vera opinber almenningi vegna stöðu Sony. Vísir/EPA
WikiLeaks hafa birt tölvupóstsamskipti starfsmanna Sony sem stolið var í tölvuárás sem gerð var á fyrirtækið á síðasta ári. Yfir 170.000 tölvupóstum og 30.000 skjölum var stolið í árásinni sem bandarísk stjórnvöld hafa sagt vera á ábyrgð norðurkóreskra stjórnvalda.

Í yfirlýsingu á vef WikiLeaks sem birt var í dag er haft eftir Julian Assange, ritstjóra uppljóstrunarsíðunnar, að gögnin eigi að vera aðgengileg öllum þar sem Sony Pictures Entertainment sé stórt alþjóðlegt fyrirtæki sem standi í miðju alþjóðlegra deilna. 

Tölvupóstsamskiptin voru í deiglunni á síðasta ári eftir að þau voru birt á netinu af ónefndum tölvuþrjótum. Málið var rannsakað af lögregluyfirvöldum í Bandaríkjunum sem komust að þeirri niðurstöðu að glæpamenn tengdir Norður-Kóreu væru á bak við árásina.

Málið var allt hið vandræðalegasta fyrir Sony en meðal þess sem kom í ljós var að leikkonum var borgað minna í sumum tilfellum heldur en karlkyns mótleikurum þeirra, auk margra annarra umdeildra mála. 

Birting gagnanna setti sýningu kvikmyndarinnar The Interview einnig í uppnám en hætt var við að frumsýna hana í kvikmyndahúsum um jólin eftir að tölvuþrjótarnir settu fram kröfu um að myndin yrði aldrei sýnd. Hún var svo síðar gerð aðgengileg á streymisveitum á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×