Körfubolti

Westbrook náði því sem Jordan gerði síðast 1989 | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook lék með grímu í nótt.
Russell Westbrook lék með grímu í nótt. Vísir/AP
Russell Westbrook varð í nótt fyrsti NBA-leikmaðurinn í 26 ár sem nær því að vera með þrennu í fjórum leikjum í röð en hann átti magnaðan leik í sigri Oklahoma City Thunder á Philadelphia 76ers.

Oklahoma City Thunder vann 123-118 sigur á 76ers í framlengingu og Westbrook endaði leikinn með 49 stig, 16 fráköst og 10 stoðsendingar.

Russell Westbrook varð sjötti leikmaðurinn í sögunni til að vera með þrefalda tvennu í fjórum leikjum í röð en hinir í þessum fámenna hópi eru Maurice Stokes, Oscar Robertson, Wilt Chamberlain, Magic Johnson og Michael Jordan.

Michael Jordan var sá síðasti sem hafði náð slíku afreki en Jordan var með þrennu í sjö leikjum í röð árið 1989. Westbrook náði því líka að vera með 40 stig í þrennu í tveimur leikjum í röð líkt og Jordan afrekaði líka 1988-89 tímabilið og aðeins einn annar hefur gert (Pete Maravich 1974-75).

Russell Westbrook hefur þurft að gera meira í fjarveru Kevin Durant en Oklahoma City Thunder liðið þarf að hafa mikið fyrir því að vera með í úrslitakeppninni í ár eftir slaka byrjun á tímabilinu.

Þessar fjórar þrennur hans eru magnaðar enda skoraði hann yfir 35 stig í þremur þeirra.

Með því að skora 49 stig í þrennu í nótt jafnaði Westbrook jafnframt met Larry Bird yfir flest stig skoruð í þrennu-leik undanfarin 30 tímabil. Westbrook og Vince Carter eru nú þeir einu undanfarin þrjátíu ár sem hafa verið með 45+ stig, 15+ fráköst og 10+ stoðsendingar í einum leik.

Russell Westbrook átti magnaðan febrúar þar sem hann var með 31.2 stig, 9,1 fráköst og 10,3 stoðsendingar að meðaltali í leik en slíkum tölum hafði enginn náð í 10 leikja mánuði síðan að Oscar Robertson var upp á sitt besta.

Fjórar þrennur Russell Westbrook í röð:

105-92 sigur á Indiana  - 20 stig, 11 fráköst, 10 stoðsendingar

113-117 tap fyrir Phoenix  - 39 stig, 14 fráköst, 11 stoðsendingar

112-115 tap fyrir Portland  - 40 stig, 13 fráköst, 11 stoðsendingar

105-02 sigur á Philadelphia - 49 stig, 16 fráköst, 10 stoðsendingar

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×