Körfubolti

Westbrook ekki valinn í byrjunarlið Stjörnuleiks NBA-deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Vísir/Getty
Bandarískir fjölmiðlar hafa margir furðað sig á því að Russell Westbrook sé ekki meðal þeirra tíu leikmanna sem byrja Stjörnuleik NBA-deildarinnar sem fram fer í næsta mánuði.

Nú var byrjunarlið Stjörnuleiksins valið með nýju fyrirkomulagi en nú réðu ekki aðeins aðdáendur heldur voru tekin inn atkvæði frá bæði leikmönnum og fjölmiðlamönnum.  Það má lesa um stigagjöf og allar niðurstöður kjörsins á heimasíðu NBA.

Russell Westbrook hefur verið magnaður með Oklahoma City Thunder og því skrýtið að hann sé ekki meðal byrjunarliðsmanna Vestursins.  Hann var í fyrsta sæti hjá bæði leikmönnum og fjölmiðlamönnum en aðeins í þriðja sæti í kosningu almennings. Atkvæði almennings vógu 50 prósent og það dugði Curry og Harden að komast upp fyrir Westbrook.

Hann er með þrennu að meðaltali, hefur skorað 30,6 stig, gefið 10,4 stoðsendingar og tekið 10,6 fráköst að meðaltali í fyrstu 44 leikjum tímabilsins.

Byrjunarliðin voru tilkynnt með viðhöfn á TNT-sjónvarpsstöðinni í nótt en leikurinn sjálfur fer fram í  New Orleans 19. febrúar. Í næstu viku kemur í ljós hvaða aðrir leikmenn verða valdir og þar er öruggt að nafn Russell Westbrook verður lesið upp.

Byrjunarlið Vesturdeildarinnar er skipað þeim Stephen Curry, Kevin Durant, James Harden, Kawhi Leonard og Anthony Davis.

Byrjunarlið Austurdeildarinnar er skipað þeim Kyrie Irving, LeBron James, Jimmy Butler, Giannis Antetokounmpo og DeMar DeRozan.

LeBron James fékk flest atkvæði frá fólkinu eða 1.893.751 en í öðru sæti var Stephen Curry sem fékk 1.848.121 atkvæði. James Harden 1.771.375 atkvæði eða meira en tvö hundruð þúsund fleiri atkvæði en Westbrook (1.575.865 atkvæði).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×