Lífið

Westboro Baptist Church vill mótmæla hjá jarðarför Williams

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Bandaríski kirkjusöfnuðurinn Westboro Baptist Church, sem er helst þekktur fyrir að halda úti hatursáróði gegn samkynhneigðum, tilkynnti á Twitter um helgina að haldin yrðu mótmæli hjá jarðarför grínleikarans Robin Williams. Líklega er kvikmyndin The Birdcage frá 1996 ástæðan fyrir andstöðu safnaðarins en Williams leikur nefnilega samkynhneigðan fjölskylduföður í þeirri mynd.

Talið er að Susan Schneider, ekkja Williams, skipuleggi nú litla en nána jarðarför á San Francisco-svæðinu fyrir fjölskyldu Williams og nánustu vini hans. Ekki hafa nánari upplýsingar um tíma og stað verið gefnar upp en ef það gerist mun söfnuðurinn senda meðlimi sína á svæðið til að mótmæla samkynhneigð. Sést hefur til meðlima kirkjunnar nýlega haldandi á myndum af Williams þar sem setningin „Robin er í helvíti“ stóð á einni en „Ameríka er dauðadæmd“ á annarri.

Góðgerðarfélagið Planting Peace hefur nú safnað um 55.000 bandaríkjadölum eða meira en sex milljónum íslenskum krónum í herferðinni Remembering Robin. Sá peningur á að renna til St. Jude‘s barnaspítalans sem Williams studdi persónulega. „Við töldum að söfnun fyrir góðgerðarstarfsemi sem Robin elskaði sjálfur væri fullkomna leiðin til að heiðra hann og vinna gegn hatri og umburðarleysi Westboro Baptist-kirkjunnar,“ segir stofnandi Planting Peace.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×