Enski boltinn

West Ham skellti Chelsea | Sjáðu mörkin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Chelsea, sem valtaði yfir Manchester United, 4-0, í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn er úr leik í deildabikarnum eftir tap gegn West Ham í kvöld, 2-1.

Cheikhou Kouyate kom heimamönnum yfir á Ólympíuvellinum í Lundúnarborg á ellefu mínútu með góðum skalla og eftir tæpar þrjár mínútur í síðari hálfleik tvöfaldaði Edimilson Fernandes forskotið fyrir heimamenn, 2-0.

Lærisveinar Antonio Conte sóttu án afláts undir lokin og fengu góð færi til að minnka muninn. Gestirnir náðu aftur á móti ekki að koma inn marki fyrr en á lokasekúndunum þegar Gary Cahill skoraði af stuttu færi. Flautað var til leiksloka nánast um leið.

Chelsea hefur verið á fínum skriði að undanförnu og var búið að vinna þrjá leiki í röð í deildinni áður en kom að tapinu í deildabikarnum í kvöld.

West Ham er að rétta úr kútnum eftir skelfilega byrjun á tímabiilinu. Lið var búið að vinna tvo leiki í röð í deildinni og er nú taplaust í síðustu fjórum í öllum keppnum.

Chelsea er ekki í Evrópukeppni eftir hörmulega titilvörn á síðustu leiktíð og er það því aðeins í tveimur keppnum eftir tapið í kvöld, en keppni í enska bikarnum hefst eftir áramót.

Hér að ofan má sjá mörkin sem West Ham skoraði en mark Chelsea má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×