Enski boltinn

West Ham hafnaði tilboði Marseille í Payet

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dimitri Payet er í frystinum hjá Slaven Bilic, knattspyrnustjóra West Ham.
Dimitri Payet er í frystinum hjá Slaven Bilic, knattspyrnustjóra West Ham. vísir/getty
Enskir fjölmiðlar greina frá því að Marseille sé að reyna að fá Dimitri Payet aftur í raðir liðsins.

Payet er í sérstakri stöðu hjá West Ham United. Hann vill ekki spila lengur fyrir félagið en knattspyrnustjórinn Slaven Bilic ætlar ekki að selja hann. Og Króatinn segir að hann fái hvorki að spila né æfa með liðinu ef hann breytir ekki um hugarfar.

Payet kom til West Ham frá Marseille fyrir 11 milljónir punda sumarið 2015 en franska liðið hefur mikinn áhuga á að fá hann aftur til sín.

Samkvæmt heimildum Sky Sports bauð Marseille 19 milljónir punda í Payet. West Ham hafnaði því tilboði.

Payet sló í gegn með West Ham á síðasta tímabili. Hann skoraði níu mörk og gaf 12 stoðsendingar í 30 deildarleikjum og var tilnefndur sem leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Payet fylgdi þessari góðu frammistöðu eftir á EM 2016 þar sem hann skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar í sjö leikjum Frakka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×