Enski boltinn

West Ham gæti þurft að spila fyrir luktum dyrum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Chelsea storkar hér stuðningsmönnum West Ham á leik liðanna í vikunni.
Stuðningsmaður Chelsea storkar hér stuðningsmönnum West Ham á leik liðanna í vikunni. Vísir/Getty
Vandræðin með stuðningsmenn West Ham hafa verið mikið til umræðu í Englandi eftir slæma hegðun hluta þeirra á mörgum heimaleikjum Lundúnaliðsins á þessu tímabili.

West Ham flutti frá Upton Park yfir á Ólympíuleikvanginn í sumar og hvort að það hafi verið kveikjan eða ekki þá eru stuðningsmenn West Ham búnir að vera óvenju pirraðir á fyrstu mánuðum tímabilsins.

Ólympíuleikvöllurinn er vissulega glæsilegur og góður kostur fyrir West Ham en öryggisgæslan hefur hinsvegar ekki verið í nægilega góðum málum. Hún var aukin fyrir síðasta leik en það dugði ekki.

Nú kalla háttsettir menn á harðar aðgerðir eftir mikil ólæti á deildabikarleik West Ham og Chelsea í vikunni þar sem óeirðalögregla átti í fullu fangi með að skilja að ósátta stuðningsmenn í stúkunni. Sex voru á endanum handteknir og þrír þeirra hafa í framhaldinu verið ákærðir.

„Þetta er ekki boðlegt. Ef við sjáum aftur þetta ofbeldi á áhorfendapöllunum í næstu tveimur eða þremur heimaleikjum West Ham þá er eina í stöðunni að West Ham spili fyrir luktum dyrum,“ sagði þingmaðurinn Mark Field við Evening Standard en hann er varastjórnarformaður í þingnefnd sem sér um fótboltatengd mál.

Vandamálið er því komið alla leið inn á breska þingið og þar krefjast þingmenn þess að forráðamenn West Ham taki á þessu máli. Ef það tekst ekki eiga stuðningsmenn West Ham það á hættu að vera lokaðir úti.

Forráðamenn West Ham hafa hótað því að setja alla ólátabelgi í lífstíðarbann og hefur lagt ofurkapp á að finna út hvaða tvö hundruð óeirðarseggir voru þarna að verki. Enska knattspyrnusambandið hefur einnig sett af stað rannsókn á vandamálinu.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×