Enski boltinn

West Ham enn í fallsæti | Úrslit dagsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sunderland og West Ham náðu bæði að stöðva langa taphrinu í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar liðin náðu jafntefli eftir að hafa lent undir í sínum leikjum.

West Ham gerði 1-1 jafntefli við Middlesbrough þar sem Christian Stuani kom Boro yfir með skalla eftir hornspyrnu Viktor Fischer.

Dimitri Payet skoraði glæsilegt jöfnunarmark fyrir West Ham en hann sólaði þá fjóra varnarmenn Boro upp úr skónum áður en hann skilaði boltanum í netið.

Sunderland og West Brom skildu jöfn, 1-1. Patrick van Aanholt skoraði jöfnunarmark Sunderland eftir að hafa komið inn á sem varamaður en markið kom sjö mínútum fyrir leikslok.

Nacir Chadli hafði komið West Brom yfir með sínu þriðja deildarmarki á tímabilinu en markið kom þó gegn gangi leiksins.

Þá gerðu Watford og Bournemouth jafntefli, 2-2, í fjörugum leik þar sem að Watford lenti tvívegis undir. Isaac Success stóð undir nafni og skoraði síðara jöfnunarmark Watford.

Callum Wilson og Joshua King skoruðu mörk Bournmouth í leiknum en Troy Deeney skoraði fyrra mark Watford.

West Ham og Sunderland eru enn í fallsætum en síðarnefnda liðið er komið úr botnsæti á kostnað Stoke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×