Enski boltinn

Wenger vill fá fleiri mörk frá Özil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wenger hefur trú á því að Özil muni springa út í vetur.
Wenger hefur trú á því að Özil muni springa út í vetur. vísir/getty
Arsene Wenger segir að Mesut Özil geti komið sér í hóp allra bestu leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar á komandi tímabili.

„Hann er meira afgerandi þegar kemur að því að stjórna leikjum,“ sagði Wenger um Þjóðverjann sem er dýrasti leikmaður í sögu Arsenal en hann kom til liðsins frá Real Madrid fyrir 42,5 milljónir punda haustið 2013.

„Hann er líkamlega sterkari og betur í stakk búinn til að takast á við ensku úrvalsdeildina. Hann er orðinn harðari af sér og geti orðið einn af bestu leikmönnum deildarinnar á næsta tímabili.“

Þrátt fyrir að Wenger sjái framfarir í leik Özils vill hann sjá Þjóðverjann skora meira en hann hefur gert.

„Ég vil að hann skori meira því hann spilar í þannig stöðu. En hann nýtir færin sín ekki nógu vel. Hann veit af þessu og vill bæta sig svo ég er bjartsýnn á að við fáum fleiri mörk frá honum,“ sagði Wenger sem vill sjá Özil skora a.m.k. 10 mörk á tímabili.

Wenger segir einnig að það muni hjálpa Özil að hafa fengið heilt undirbúningstímabil með Arsenal í fyrsta skipti síðan hann kom til félagsins.

„Özil kom mjög seint til okkar 2013 og náði ekki undirbúningstímabilinu og ári seinna var hann dauðþreyttur eftir HM. Hann meiddist svo og var frá í fjóra mánuði en sýndi hvað í honum býr á seinni hluta tímabilsins.

„En núna kemur stóra prófið: tímabilið í ár er mjög mikilvægt fyrir hann,“ sagði Wenger.

Arsenal mætir Chelsea í leiknum um Samfélagsskjöldinn í dag.

Leikurinn hefst klukkan 14:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Einnig verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×