Enski boltinn

Wenger sagður tilbúinn að hlusta á tilboð í Özil

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mesut Özil og Alexis Sánchez gætu báðir farið frá Arsenal.
Mesut Özil og Alexis Sánchez gætu báðir farið frá Arsenal. vísir/getty
Mesut Özil, miðjumaður Arsenal, gæti verið á útleið frá félaginu í sumar samkvæmt frétt The Telegraph í dag en Arsene Wenger, knattspyrnustjóri félagsins, er sagður tilbúinn að hlusta á tilboð í leikmanninn í sumar ef hann fer ekki að skrifa undir nýjan samning.

Samningur Özil rennur ekki út fyrr en eftir næstu leiktíð en Wenger gæti freistast til að fá meira fyrir hann að þessu tímabili loknu fari hann ekki að krota undir.

Samningur Alexis Sánchez rennur einnig út sumarið 2018 og eru báðir leikmenn orðaðir við brottför frá félaginu. Wenger er sagður alls ekki vilja missa Özil frítt en Frakkinn vill frekar selja hann.

Chelsea, Manchester City og Juventus hafa öll sýnt þýska landsliðsmanninum áhuga auk Real Madrid á Spáni.

Mesut Özil er búinn að spila frábærlega fyrir Arsenal í vetur. Hann er búinn að skora átta mörk í deild og Meistaradeild auk þess sem hann er búinn að leggja upp önnur sex í báðum keppnum.

Síðan hann gekk í raðir Arsena er hann búinn að skora 19 mörk og leggja upp 38 í 96 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×