Enski boltinn

Wenger opinn gagnvart landsliðsþjáfarastarfinu í Englandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. vísir/getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er opinn fyrir því að gerast landsliðsþjálfari Englands einn daginn. Hann mun þó einbeita sér áfram að því að stýra Arsenal, líkt og hann hefur gert síðustu tvo áratugi.

Enska knattspyrnusambandið er nú að leita sér að nýjum þjálfara fyrir karlalandsliðið eftir að Sam Allardyce hrökklaðist í burtu í vikunni.

Allardyce gerðist uppvís að samþykkja greiðslu gegn því að veita ráðleggingar hvernig hægt er að sniðganga reglur ensku sambandsins um leikmannakaup. Hann var myndaður af rannsóknarblaðamönnum The Telegraph, eins og ítarlega hefur verið fjallað um.

„Einn daginn, ef ég er laus. Af hverju ekki?“ sagði Wenger á blaðamannafundi í dag um málið. Hann ítrekaði þó að hann hefði ekki í hyggju að yfirgefa Arsenal nú.

Arsenal er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með þrettán stig að loknum sex umferðum. Liðið mætir nýliðum Burnley á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×