Enski boltinn

Wenger kemur Coquelin til varnar: Með bestu tölfræðina í Evrópu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Francis Coquelin, leikmaður Arsenal.
Francis Coquelin, leikmaður Arsenal. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, kom varnarsinnaða miðjumanni sínum, Francis Coquelin, til varnar eftir að Gary Neville, sparkspekingur á Sky, gagnrýndi hann fyrir leik Arsenal og Liverpool.

Neville sagði að hann hefði litla trú á því að Arsenal gæti orðið enskur meistari með leikmann á borð við Coquelin innanborðs. Sagði Neville að liðið þyrfti á leikmanni á borð við Patrick Vieira að halda til þess að blanda sér í baráttuna um titla.

Wenger var þessu ósammála en hann sagði að tölfræðin sannaði að Coquelin væri einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins.

„Það er búið að ræða það lengi að Arsenal kaupi ekki varnarsinnaða leikmenn en Coquelin er með bestu tölfræðina í Evrópu þegar kemur að vörn. Frá janúar hefur ekkert lið fengið færri mörk á sig en Arsenal og hann á stóran þátt í því.“

Wenger skaut að lokum föstum skotum að Neville sem hefur slegið í gegn sem sérfræðingur hjá SkySports.

„Það hafa ekki allir rétt fyrir sér í fótbolta en það þarf að hafa eitthvað á bak við yfirlýsingar eins og þessar, sérstaklega ef þú ert sérfræðingur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×