Enski boltinn

Wenger: Leyfum okkur ekki að dreyma um titilinn lengur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger svekktur á hliðarlínunni í gær.
Arsene Wenger svekktur á hliðarlínunni í gær. vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var eðlilega niðurlútur eftir 2-1 tap liðsins gegn Swansea í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi, en með sigri hefðu Skytturnar getað minnkað muninn á milli sín og Leicester á toppnum í þrjú stig.

Arsenal réði lögum og lofum í leiknum framan af og komst í 1-0, en Swansea jafnaði metin fyrir hálfleik og Gylfi Þór Sigurðsson lagði svo upp sigurmarkið fyrir Ashley Williams í seinni hálfleik.

Sjá einnig:Gylfi lagði upp sigurmark Swansea gegn Arsenal | Sjáðu mörkin

„Það lítur út fyrir það, já,“ svaraði svekktur Wenger á blaðamannafundi aðspurður hvort það væri skortur á sjálfstrausti hjá leikmönnum liðsins.

„Við verðum að einbeita okkur að því sem við þurfum að gera og reyna að minna okkur á að það eru gæði í liðinu. Við þurfum að greina þessi úrslit og koma sterkir til baka því við eigum stórleik um helgina,“ sagði Wenger, en Arsenal mætir Tottenham á laugardaginn í Lundúnarslag.

Sjá einnig:Gylfi fékk átta fyrir innkomuna í Lundúnum: „Svo rosalega mikilvægur þessu liði“

Arsenal hefur ekki unnið ensku úrvalsdeildina síðan 2004 en var í góðri stöðu fyrir ekki mörgum vikum síðan og gat þá leyft sér að dreyma um fyrsta titilinn í tólf ár.

„Á þessari stundu hef ég meiri áhyggjur af úrslitunum heldur en titlinum. Við leyfum okkur ekki einu sinni að dreyma um titilinn þessa stundina. Við þurfum bara að vera raunhæfir og reyna að koma sterkir til baka,“ sagði Arsene Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×