Enski boltinn

Wenger: Ekki svo einfalt að fá Fabregas aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabregas og Wenger saman á æfingu áður en sá fyrrnefndi fór til Barcelona.
Fabregas og Wenger saman á æfingu áður en sá fyrrnefndi fór til Barcelona. Vísir/Getty
Arsenal og Chelsea eigast við í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Spánverjinn Cesc Fabregas er í stóru hlutverki hjá Chelsea en hann var lengi hjá Arsenal.

Fabregas kom ungur til Lundúna og var hjá Arsenal í sjö ár áður en hann fór aftur á heimaslóðir í Barcelona árið 2011. Þegar hann kom svo aftur inn á leikmannamarkaðinn í sumar var talið að Arsenal ætti fyrsta valkost á að kaupa hann aftur til félagsins.

Það gerðist aldrei og endaði Fabregas á því að semja við annað Lundúnarlið, Chelsea. Wenger var spurður um þetta á blaðamannafundi í dag en hann vildi ekki fara út í smáatriði.

„Ég get ekki rætt um ástæður þess því það mun ekki hjálpa okkur að vinna leikinn á sunnudag,“ sagði Wenger. „Við verðum að ræða þetta einn daginn og alla þá skilmála sem fylgdu. Þetta var ekki jafn einfalt og margir halda.“

Wenger segist fyrst og fremst sjá eftir að hafa misst Fabregas á sínum tíma, fremur að hafa ekki endurheimt hann. „Félagið og ég sjálfur höfðum mikil og jákvæð áhrif á líf Cesc. Það er því fremur óþægilegt fyrir okkur að réttlæta ástæður þess að hann er ekki hér í dag. Ég myndi fremur kjós að það væri á hinn veginn.“

Arsenal tapaði 6-0 fyrir Chelsea á Samford Bridge á síðasta tímabili en það var 1000. leikurinn undir stjórn Wenger. Þá hafa hann og Jose Mourinho, stjóri Chelsea, margsinnis eldað saman grátt silfur en Frakkinn gerði lítið úr því.

„Þetta er leikur tveggja liða, ekki tveggja knattspyrnustjóra. Við erum á góðum spretti og eigum möguleika á að vinna þá á heimavelli. Við viljum nýta okkur þann möguleika.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×