Enski boltinn

Wenger: Bíðum aðeins með að líkja Welbeck við Henry

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði mönnum að vera rólegir þegar þeir fóru að bera saman Danny Welbeck og Arsenal-goðsögnina ThierryHenry eftir sigur liðsins á Aston Villa á laugardaginn.

Welbeck spilaði vel í leiknum; skoraði eitt mark og lagði upp annað fyrir Þjóðverjann Mesut Özil sem hefur verið harkalega gagnrýndur að undanförnum.

Enska landsliðsframherjanum virðist líða vel hjá Arsenal þar sem hann fær nú að spila sem framherji eftir að hafa verið mikið geymdur á kantinum hjá Manchester United.

Thierry Henry lenti í svipuðum hlut þegar hann kom frá Juventus til Arsenal árið 1999. Hjá ítalska liðinu var hann mikið látinn spila á kantinum, en hjá Arsenal var hann fremsti maður og raðaði inn mörkum.

„Sjáið nú til, gefið mér smá tíma. Það er frekar snemmt að fara að bera þá saman þegar litið er til allra markanna sem Henry skoraði,“ sagði Wenger eftir sigurinn á Villa.

„Danny hefur mikla hæfileika og það verður gaman að sjá hvernig hann þróast. Hann hefur gott hugarfar, er líkamlega sterkur, góður með boltann og gerir mikið fyrir sóknarleikinn okkar því hann tapar ekki boltanum og allt eru þetta góðir kostir. Thierry Henry setti gott fordæmi og ég hef ekkert á móti því að menn feti í hans fótspor.“

Aðspurður hvort það geri Welbeck ekki gott að spila fremstur og fara að skora aftur sagði Frakkinn:

„Hann spilaði á kantinum hjá Manchester United, en aldrei sem fremsti maður. Maður missir svolítið tilfinninguna fyrir því að skora mörk og finnur ekki fyrir sömu pressu. Maður verður að vera fremstur og bíða eftir tækifærinu til að ganga frá andstæðingnum. Sem kantmaður er sú pressa ekki jafnmikil.“


Tengdar fréttir

Welbeck: Góð frammistaða hjá liðinu

Danny Welbeck skoraði sitt fyrsta mark fyrir Arsenal í 3-0 sigri þeirra á Aston Villa í dag. Welbeck var skiljanlega ánægður í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×