Fótbolti

Wenger: Ánægja annarra er pína fyrir mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neymar og Messi fagna í gær.
Neymar og Messi fagna í gær. Vísir/Getty
Luis Suarez, Lionel Messi og Neymar voru allir á skotskónum fyrir Barcelona í síðari leiknum gegn Arsenal í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Barcelona er komið áfram eftir 5-1 samanlagðan sigur en Arsenal fékk þó nokkur góð færi í stöðunni 1-1 í gær en fór illa að ráði sínu.

„Mér fannst þegar staðan var 1-1 þá voru þeir óstyrkir og óöruggir,“ sagði Wenger eftir leikinn í gær. „Við náðum ekki að nýta færin og skora annað mark sem hefði komið okkur í góða stöðu.“

Suarez og Messi skoruðu fyrir Barcelona í síðari hálfleik og gerðu út um einvígið. Messi er nú kominn með 37 mörk, Suarez 46 og Neymar er með 28 mörk á tímabilinu.

Sjá einnig: MSN-tríóið komst allt á blað og Arsenal úr leik

„Við spiluðum gegn liði sem eru með bestu sóknarmenn sem ég hef séð. Þessir þrír saman eru algjörlega ótrúlegir,“ sagði Wenger.

„Þeir geta búið sér til svæði úr engu, sérstaklega Messi. Hann klikkaði aldrei á fyrstu snertingunni og skipti engu máli hvaðan boltinn kom.“

„Stundum kemur bara að því í þessari íþrótt að maður verður að dást að því hvað 2-3 leikmenn geta gert til að breyta venjulegu lífi í list. Ég dáist að því og trúi því að það er ánægjulegt. En fyrir mig er það pína.“


Tengdar fréttir

Welbeck: Við áttum að gera betur

Framherji Arsenal svekktur með úrslitin í Katalóníu í kvöld þar sem Skytturnar kvöddu Meistaradeildina í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×