Enski boltinn

Wembley-vitleysan fór alveg með Evrópuævintýri Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tottenham, sem byrjaði tímabilið í Meistaradeildinni, datt í gær út úr 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Þetta hefur ekki verið glæsilegur Evrópuvetur hjá Spurs.

Uppskeran er aðeins tveir sigrar í átta Evrópuleikjum á tímabilinu og Tottenham-menn geta núna farið að einbeita sér að ensku úrvalsdeildinni og enska bikarnum þar sem þær mæta Millwall í átta liða úrslitunum.

Það er allavega ljóst að eini leikurinn sem Tottenham spilar aftur á Wembley verður bikarúrslitaleikurinn.

Þetta Wembley-ævintýri Tottenham í Evrópukeppninni hefur engan veginn gengið upp og margir eru sannfærðir um að liðið væri enn með í Meistaradeildinni ef liðið hefði bara spilað sína heimaleiki á White Hart Lane.

Tölfræðin talar líka sínu máli. Tottenham hefur nú fengið fleiri mörk á sig í fjórum Evrópuleikjum á Wembley (6 mörk) en í tólf deildarleikum á White Hart Lane (5 mörk).

Tottenham vann aðeins einn af þessum fjórum leikjum á Wembley og sá sigur kom í lokaleik riðlakeppni Meistaradeildarinnar á móti CSKA Moskvu þegar liðið átti ekki lengur möguleika á því að komast í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Tottenham hefur unnið báða heimaleiki sína í enska bikarnum og hefur náð í 32 af 36 stigum í boði á White Hart Lane í ensku úrvalsdeildinni þar sem markatala liðsins í tólf leikjum er 26-5.

Sú ákvörðun að fara með Evrópuleikina á stærri völl til þess að geta selt fleiri miða hafði því mikil áhrif á þróun tímabilsins hjá Tottenham. Þeir fengu tvöfalt fleiri áhorfendur á Evrópuleikina en Evrópuleikirnir urðu kannski helmingi færri vegna slakrar frammistöðu á „heimavellinum“ sem var enginn heimavöllur fyrir liðsmenn Tottenham.

Heimaleikir Tottenham í Evrópukeppninni á Wembley

2-1 tap á móti Mónakó

1-0 tap á móti Bayer Leverkusen

3-1 sigur á CSKA Moskvu

2-2 jafntefli við Gent




Fleiri fréttir

Sjá meira


×