Enski boltinn

Wayne Rooney sagður á leið til Kína og það strax í næstu viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Vísir/Getty
Ensku blöðin slá því mörg upp í morgun að Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, verði seldur til Kína og það strax í næstu viku.

Samkvæmt frétt The Sun þá mun Manchester United selja leikmanninn á 52 milljónir punda eða 7,1 milljarð íslenskra króna.

Rooney þarf svo sannarlega ekki að kvarta yfir laununum sínum en hann mun fá milljón pund í vikulaun eða 138 milljónir íslenskra króna sem gerir hann um leið að launahæsta fótboltamanni heims.  

Rooney á átján mánuði eftir að af samningi sínum hjá Manchester United en þar fær hann 250 þúsund pund, 34 milljónir, eða fjórðung þess sem hann fengi í Kína.

Jose Mourinho var á blaðamannafundi í gær ekki tilbúinn að lofa því að Rooney yrði hjá Manchester United á næsta tímabili og það var vissulega eldur á sögusagnir um félagsskipti enska landsliðsfyrirliðans til Kína.

Wayne Rooney hefur gengið illa að vinna sér sæti í byrjunarliði Manchetser United síðan að Jose Mourinho settist í stjórastólinn.Rooney tókst þó að bæta markamet Bobby Charlton og er hann nú markahæsti leikmaður Manchester United frá upphafi.

Rooney er með 5 mörk í 29 leikjum á tímabilinu  þar af 2 mörk í 17 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Hann er hinsvegar búinn að gefa 10 stoðsendingar sem er það mesta hjá United á leiktíðinni.

Hér fyrir neðan má sjá tvær forsíður hjá enskum blöðum þar sem hugsanleg félagsskipti Rooney voru aðalmálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×