Viðskipti erlent

Warren Buffet kaupir bílasölukeðju

Finnur Thorlacius skrifar
Warren Buffet misheppnast sjaldan í fjárfestingum.
Warren Buffet misheppnast sjaldan í fjárfestingum.
Allar fjárfestingar auðkýfingsins Warren Buffet vekja athygli, en það er sjaldan sem honum misheppnast á því sviðinu. Síðustu kaup hans vöktu mikla athygli í bílaheiminum því hann keypti stærstu bílasölukeðju í Bandaríkjunum sem er í einkaeigu.

Keðjan heitir Van Tuyl Group og á 78 bílasölur í 10 ríkjum Bandaríkjanna. Van Tuyl velti 968 milljörðum króna á síðasta ári svo þar fer ekki lítið fyrirtæki. Þar sem að bílasölukeðjan er ekki á hlutabréfamarkaði, heldur í einkaeigu þarf Buffet ekki að greina frá kaupverðinu. Nafn þessa nýja fyrirtækis Buffet mun breytast í Berkshire Hathaway Automotive.

Samþykkja þarf kaup Buffet hjá opinberum aðilum, sem og bílaframleiðendum en búast má við því kaupin verði endanlega kláruð á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Fjárfestingar Warren Buffet liggja víða en fæstir áttu von á því að hann veðjaði á bílageirann, en góð sala bíla í Bandaríkjunum og góðar áframhaldandi horfur hafa vafalaust ráðið miklu um þessi kaup hans.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×