Körfubolti

Walton tekinn við Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Walton bíður erfitt en spennandi verkefni hjá Lakers.
Walton bíður erfitt en spennandi verkefni hjá Lakers. vísir/getty
Luke Walton verður næsti þjálfari stórliðs Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta.

Walton tekur við starfinu af Byron Scott sem var rekinn á dögunum. Lakers gekk skelfilega í vetur og vann aðeins 21 af 82 leikjum sínum.

Þetta er fyrsta aðalþjálfarastarf Walton sem hefur verið aðstoðarþjálfari Steve Kerr hjá Golden State Warriors undanfarin tvö ár.

Walton, sem er 36 ára, hefur þó reynslu af því að stýra liði í NBA-deildinni en hann leysti Kerr af á bekknum hjá Golden State í byrjun tímabilsins meðan sá síðarnefndi var frá vegna bakmeiðsla. Walton stýrði Golden State í 43 leikjum en 39 þeirra unnust.

Walton þekkir vel til hjá Lakers en hann lék með liðinu á árunum 2003-12 og varð meistari með því 2009 og 2010.

Walton er ætlað að halda áfram að byggja upp nýtt lið hjá Lakers. Talsvert pláss losnaði undir launaþakinu þegar Kobe Bryant lagði skóna á hilluna og þá fær Lakers væntanlega að velja snemma í nýliðavalinu í ár.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×