Viðskipti erlent

Walmart hækkar lægstu laun í 9 dali

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Walmart keðjan hefur lengi sætt gagnrýni fyrir láglaunastefnu en nú ætlar fyrirtækið að hækka laun.
Walmart keðjan hefur lengi sætt gagnrýni fyrir láglaunastefnu en nú ætlar fyrirtækið að hækka laun. Vísir/EPA
Bandaríska smásölukeðjan Walmart tilkynnti á fimmtudag að til standi að hækka lægstu laun starfsmanna fyrirtækisins í jafnvirði 1.186 króna á klukkutíma. Hækkunin á að taka gildi um næstu mánaðarmót.

Tilkynningin kom á sama tíma og niðurstöður ársfjórðungsuppgjörs fyrirtækisins var birt. Með breytingunum hækka laun þúsunda starfsmanna Walmart, sem er stærsti vinnuveitandi í Bandaríkjunum fyrir utan hið opinbera.

Samkvæmt fyrirtækinu sjálfu eru um 6.000 af 1,3 milljónum starfsmanna með lágmarkslaun, sem nema jafnvirði 955 króna á klukkustund, og verður launahækkun til þeirra um 25 prósent. Walmart segir að um fjörutíu prósent allra starfsmanna muni fá launahækkun.

Walmart hefur lengi sætt gagnrýni fyrir láglaunastefnu og hafa aðrar stórar verslunarkeðjur, til að mynda Gap og IKEA, verið skrefi á undan fyrirtækinu að hækka laun. Í bréfi frá Doug McMillon, forstjóra Walmart, til starfsmanna segir að breytingin sé viðleitni til að gera vel við starfsfólk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×