Enski boltinn

Walcott og Cazorla framlengja við Arsenal

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hver veit nema að Cazorla sé að hvísla að Walcott laununum sínum þarna.
Hver veit nema að Cazorla sé að hvísla að Walcott laununum sínum þarna. Vísir/Getty
Theo Walcott og Santi Cazorla skrifuðu báðir í dag undir nýja saminga hjá Arsenal en Walcott framlengdi til fjögurra ára á meðan Cazorla skrifaði undir til þriggja ára. Ætti það að gera út um alla orðróma að þeir tveir séu á förum en báðir hafa þeir verið orðaðir við brottför frá félaginu.

Walcott sem átti eitt ár eftir af samningi sínum hefur verið orðaður við Liverpool undanfarna mánuði en talið var að hann væri ósáttur með að vera alltaf sagt að leika á hægri kantinum þegar hann vill vera fremsti maður.

Walcott skrifaði hinsvegar í dag undir fjögur ára samning sem gerir út um alla orðróma en hann er sá leikmaður sem hefur verið lengst hjá félaginu af núverandi leikmönnum, allt frá árinu 2006.

Cazorla sem er 30 árs hefur undanfarna mánuði verið orðaður við Atletico Madrid en hann átti eitt ár eftir af samningi sínum. Hefur hann verið lykilleikmaður hjá Arsenal allt frá því að hann gekk til liðs við Skytturnar frá Malaga árið 2012. Hefur enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hefur lagt upp fleiri mörk frá árinu 2012.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var skiljanlega ánægður þegar þetta var komið í höfn.

„Það er frábært að okkur hafi tekist að framlengja við Santi og Theo. Þeir eru leikmenn í fremstu röð sem eru liðinu mjög mikilvægir. Þeir eru vinsælir meðal leikmanna liðsins og koma með mikla reynslu inn í leikmannahóp liðsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×