Enski boltinn

Walcott mætti í klefann hjá Sutton eftir leikinn | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theo Walcott bar fyrirliðaband Arsenal í gær.
Theo Walcott bar fyrirliðaband Arsenal í gær. Vísir/Getty
Arsenal-maðurinn Theo Walcott hefur fengið hrós á Samfélagsmiðlum fyrir íþróttamannlega framkomu sína eftir bikarsigurinn á utandeildarliði Sutton United í gær.

Walcott skoraði seinna mark Arsenal í 2-0 sigri en leikurinn fór fram á gervigrasvellinum Gander Green Lane sem tekur aðeins fimm þúsund manns.

Eftir leikinn þá birtist Theo Walcott í búningsklefa Sutton United liðsins og þakkað öllum leikmönnum þess persónulega fyrir leikinn.

Frábær árangur utandeildarliðsins í vetur hefur verið mikið ævintýri og leikmenn liðsins eiga hrós fyrir. Walcott gerði sér grein fyrir því að gerði kvöldið enn eftirminnilegra fyrir þessa leikmenn sem voru flestir að spila stærsta leik lífsins í gær.  Walcott var líka fyrirliði Arsenal í leiknum og það hafi örugglega eitthvað um það að segja að hann mætti í klefann.

Theo Walcott gat annars verið sáttur með sig í leiknum enda að skora þarna sitt hundraðasta mark fyrir Arsenal. Hann hefur ennfremur þegar skorað fjögur mörk í tveimur leikjum sínum í enska bikarnum því hann var með þrennu á móti Southampton í 32 liða úrslitunum.

Það er annars utandeildarþema hjá Arsenal í enska bikarnum því liðið mætir öðru utandeildarliði, Lincoln City, í átta liða úrslitum enska bikarsins. Sá leikur fer hinsvegar fram á Emirates Stadium, heimavelli Arsenal.

BBC birti hjá sér myndband þar sem Walcott sést inn í klefa Sutton United eftir leikinn og má sjá það hér fyrir neðan.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×