Innlent

VR sýknað af kröfum Söru Lindar

Birgir Olgeirsson skrifar
Sara Lind Guðbergsdóttir og Stefán Einar Stefánsson.
Sara Lind Guðbergsdóttir og Stefán Einar Stefánsson. Vísir
Stéttarfélagið VR hefur verið sýknað af kröfum Söru Lindar Guðbergsdóttur sem vildi tvær milljónir króna í skaðabætur frá félaginu vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar. Þá fór hún einnig fram á bætur frá félaginu vegna eineltis sem hún sagðist hafa orðið fyrir á meðan hún starfaði fyrir VR.

Sara Lind var ráðin til VR í apríl árið 2012 en var sagt upp í júní árið 2013 vegna skipulagsbreytinga, 9 vikum eftir að Ólafía B. Rafnsdóttir hafði tekið til starfa sem formaður VR. Sara Lind er nú gift Stefáni Einari Stefánssyni, fyrrverandi formanni VR.

Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur nú rétt fyrir ellefu. Málskostnaður féll niður.

Við aðalmeðferð málsins lýsti Sara Lind samskiptum sínum við formann VR, Ólafíu B. Rafnsdóttur, en hún sagði það samstarf ekki hafa verið eins og hún hefði kosið. Sakaði hún Ólafíu um að hafa hunsað fundabeiðnir sínar ítrekað og tekið undirmann Söru Lindar með sér á fundi þar sem kjaramál voru rædd. Hún sagðist hafa upplifað þessa framkomu sem lítilsvirðingu.

Sjá einnig:Segist hafa verið niðurlægð og augljóst að Ólafíu var illa við sig

Ólafía lýsti því fyrir dómi að hún hefði leitað til þeirra sem höfðu yfirburða þekkingu á málefnum VR þegar hún tók til starfa sem formaður félagsins árið 2013. Ástæðan fyrir því að hún leitaði til undirmanns Söru Lindar var sú að sá hafði 25 ára reynslu af kjaramálum. „Mér fannst það bara eðlilegt og við hæfi að afla mér upplýsinga hjá þeim sem hafði yfirburðaþekkingu,“ sagði Ólafía fyrir dómi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×