Skoðun

Vöxtur framundan

Ólafur Darri Andrason skrifar
Horfur í íslensku efnahagslífi eru bjartari en um langt árabil. Samkvæmt nýrri spá hagdeildar ASÍ má búast við góðum vexti landsframleiðslunnar á komandi árum. Spáin gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 3,1–3,5% fram til ársins 2016, árlegur vöxtur einkaneyslu verður á bilinu 3,4%–4,3%. Fjárfestingar taka við sér og aukast á bilinu 14,8%–17,2% en gert er ráð fyrir að ráðist verði í byggingu þriggja nýrra kísilverksmiðja og að íbúðafjárfesting aukist um rúm 20% á ári út spátímann. Þá dregur úr atvinnuleysi. Áhyggjuefni er að verðbólga fer vaxandi og verður yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands næstu tvö árin og vextir hækka. Þó að dragi úr atvinnuleysi og atvinnuþátttaka aukist þá virðist meira atvinnuleysi en þekktist fyrir hrun vera að festast í sessi hér á landi.

Stefnuleysið skaðar

Þrátt fyrir batnandi stöðu eru undirliggjandi veikleikar í hagkerfinu. Við búum enn við gjaldeyrishöft og enn bólar ekkert á tillögum ríkisstjórnarinnar um gengis- og peningamálastefnu. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu skaðlegt það er að ekki liggi fyrir stefna í þessum lykilþáttum efnahagslífsins sex árum eftir hrun. Þá er útlit fyrir að hagvöxtur verði borinn uppi af vexti þjóðarútgjalda í stað þess að útflutningur dragi vagninn.

Jöfnuður í viðskiptum við útlönd versnar því á komandi árum. Þrátt fyrir að ríkissjóður verði rekinn með afgangi er ekki sjáanlegt að ríkisfjármálin muni styðja við það sem hlýtur að vera eitt helsta markmið efnahagsstjórnarinnar sem er að viðhalda stöðugleika. Þvert á móti virðast stjórnvöld ætla að gera sömu hagstjórnarmistökin og gerð voru á árunum fyrir hrun þegar ríkisfjármálin unnu beinlínis gegn viðleitni Seðlabankans til að koma á stöðugleika. Þá má gera ráð fyrir að sú hrina launaleiðréttinga, sem hófst í upphafi ársins, muni halda áfram þannig að taktur launabreytinga verði svipaður næstu árin og á yfirstandandi ári.

Óvissa á vinnumarkaði

Aðilar vinnumarkaðarins hafa í sameiningu unnið að því að leggja grunn að því að við getum búið við sambærilega kjara- og efnahagsþróun og önnur Norðurlönd. Þar er áhersla lögð á gengis- og verðstöðugleika og uppbyggingu kaupmáttar í hægum en öruggum skrefum án þess að veikja samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuveganna. Til þess að slíkt geti gengið eftir þarf annars vegar breiða sátt um að það fyrirkomulag sé æskilegt og hins vegar trúverðuga efnahagsstefnu sem hefur sama markmið. Hvorugt er til staðar. Langt er síðan jafn lítil samstaða hefur verið á vinnumarkaði um launastefnu. Þannig samdi ríkisvaldið t.d. um tæplega 30% hækkun launa framhaldsskólakennara í rúmlega tveggja og hálfs árs samningi þar sem 16% launahækkun kemur á fyrsta ári samningstímans á meðan almennar launahækkanir margra hópa voru 2,8% í eins árs samningi. Þá hafa stjórnvöld á engan hátt staðið við yfirlýsingar um að haga ákvörðunum sínum og stefnumörkun í efnahags- og félagsmálum þannig að þær styðji við samninga sem lagt geta grunn að stöðugleika.

Á komandi árum mun reyna á hvort við getum tekist á við veikleika hagkerfisins og komið hér á svipaðri efnahagslegri umgjörð og er í nágrannalöndunum eða hvort við ætlum að láta tækifærin líða hjá og halda áfram í gamla farinu. Verði ekki veruleg hugarfarsbreyting hjá ríkisvaldinu mun viðleitni aðila vinnumarkaðarins til að koma hér á breyttri nálgun í efnahags- og kjaramálum verða unnin fyrir gýg.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×