Viðskipti innlent

Vöxtur einkaneyslu mestur frá 2007

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Fjölgun ferðamanna eykur tekjur ríkissjóðs. Allar líkur eru á að 2016 verði enn eitt metárið.
Fjölgun ferðamanna eykur tekjur ríkissjóðs. Allar líkur eru á að 2016 verði enn eitt metárið. vísir/pjetur
Þjóðarhagur vænkast og horfur næstu misserin eru góðar samkvæmt endurskoðaðri þjóðhagsspá hagdeildar ASÍ til næstu tveggja ára, sem gefin var út í gær.

Í skýrslunni er sérstaklega gerð grein fyrir mikilli spennu á vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka mælist tæp 83 prósent, þriðjungur fyrirtækja finnur fyrir skorti á starfsfólki og útlit er fyrir að eftirspurn eftir vinnuafli haldi áfram að aukast á næstunni. Dæmi um slæman aðbúnað og kjör erlends launafólks séu áminning um þörf fyrir sterkari innviði vinnumarkaðar og opinbert eftirlit.

Staða heimilanna er talin af skýrsluhöfundum hafa styrkst með vaxandi kaupmætti og batnandi skulda- og eignastöðu. Þó séu hópar ungs fólks og tekjulágra í erfiðri stöðu og greiði húsaleigu sem er langtum hærri en ásættanlegur húsnæðiskostnaður. Skuldalækkunaraðgerðir síðustu ára hafi lítið gagnast þessum heimilum. Þröng staða leigjenda með íþyngjandi húsnæðiskostnaði muni enn versna að mati skýrsluhöfunda.

Hagdeildin gerir ráð fyrir kraftmiklum vexti einkaneyslunnar á spátímanum. Hagvísar styðja mat hagdeildar upp á 6 prósenta vöxt einkaneyslunnar á þessu ári og því útlit fyrir að vöxturinn verði sá mesti frá árinu 2007. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. maí






Fleiri fréttir

Sjá meira


×