Erlent

Vottar Jehóva í Ástralíu hylmdu yfir kynferðisbrot gegn börnum

Atli Ísleifsson skrifar
Sydney í Ástralíu.
Sydney í Ástralíu. Vísir/Getty
Vottar Jehóva í Ástralíu létu vera að tilkynna um rúmlega þúsund tilfelli um kynferðisbrot gegn börnum. Þetta er haft eftir nefndarmanni í opinberri rannsóknarnefnd á vegum ástralskra stjórnvalda.

Brotin ná yfir sextíu ára tímabil og segir að liðsmenn safnaðarins hafi ekki tilkynnt eitt einasta brot til lögreglu. Þess í stað hafi farið fram sérstök „réttarhöld“ innan safnaðarins þar sem fórnarlömbin voru látin standa frammi fyrir brotamönnum sínum.

Þrátt fyrir að Vottar Jehóva hafi vísað 401 safnaðarmeðlimi úr söfnuðinum eftir að þeir hafi brotið gegn börnum þá hafi 230 þeirra verið leyft að snúa aftur.

Í frétt BBC segir að áströlsk yfirvöld hafi hafið að rannsaka kynferðisbrot innan trúarsafnaða árið 2013, eftir að brot innan kaþólsku kirkjunnar komust í hámæli.

Angus Stewart, sem sæti á í rannsóknarnefndinni, lýsir Vottum Jehóva sem einangruðum söfnuði þar sem reglur séu þannig samdar að komið sé í veg fyrir að kynferðisbrot séu tilkynnt til lögreglu.

Alls eru um átta milljónir manna í söfnuðum Votta Jehóva í heiminum og eru 68 þúsund þeirra í Ástralíu.

Stewart segir mögulegt að forvígismenn innan safnaðarins muni sæta ákæru fyrir að hylma yfir kynferðisbrotum gegn börnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×