Innlent

Vörur sem aldrei voru sóttar seldar hæstbjóðanda

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Munir sem hafa dagað uppi í vörumiðstöð Samskipa voru í dag seldir hæstbjóðanda á uppboði. Stór ósamsettur gervidiskur, vörubretti hlaðið af skóm og tuttugu og sex kaffivélar voru á meðal fjölbreyttra muna sem seldust.

Rúmlega eitt hundrað vörubretti hlaðin ýmsum munum sem aldrei hafa verið sóttir voru boðin upp í dag. Mikið var um stórar sendingar sem fyrirtæki hafa pantað en til dæmis var hægt að bjóða í fjölda handklæða og skópara auk véla, byggingarefnis og húsgagna.

Innheimtustjóri Samskipa segir vörurnar hafa legið á lager fyrirtækisins í allt að fimm ár eða frá því að síðasta uppboð af þessu tagi var haldið.

Björk Ágústsdóttir segir að sumir hafi ekki getað greitt fyrir flutninginn.skjáskot af frétt stöðvar 2
„Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Fólk getur jafnvel ekki greitt fyrir flutning eða eitthvað slíkt,“ segir Björk Ágústsdóttir, innheimtustjóri Samskipa, aðspurð hvers vegna munirnir hefðu ekki verið sóttir.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu stóð fyrir uppboðinu í vörumóttöku Samskipa en eigendum varanna hafði áður verið gefið færi á að leysa þær út. Einhverjir brugðust þá við en afgangurinn var boðinn upp í dag. Afrakstur uppboðsins fer í kostnað við flutning, umsýslu, geymslu og tollafgreiðslu varningsins.

Í flestum tilvikum var hægt að gera nokkuð góð kaup en einn uppboðsgestur keypti til dæmis stóran gervihnattardisk, sem eflaust hefur kostað sitt, á aðeins eitt þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×