Innlent

Voru með tíu kíló af MDMA í Leifsstöð

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Gæsluvarðhald yfir hollenskum mæðgum sem handteknar voru við komuna til landsins föstudaginn langa hefur verið framlengt.
Gæsluvarðhald yfir hollenskum mæðgum sem handteknar voru við komuna til landsins föstudaginn langa hefur verið framlengt. Vísir/Valli
Mæðgurnar sem handteknar voru á Keflavíkurflugvelli á föstudaginn langa voru með tíu kíló af MDMA, 9 kíló af amfetamíni og 200 grömm af kókaíni meðferðis, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.



Konurnar sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins auk Íslendings sem handtekinn var á hóteli í miðbæ Reykjavíkur sama dag og konurnar komu til landsins. Málið er enn til rannsóknar.



Gæsluvarðhald yfir konunum var framlengt í gær. Móðirin mun sitja í gæsluvarðhaldi næstu fjórar vikur en dóttir hennar, sem er sautján ára gömul, fram í næstu viku, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.



Gæsluvarðhald yfir manninum var einnig framlengt en ekki hafa fengist upplýsingar um hversu langan tíma það var framlengt.



Konurnar eru taldar vera burðardýr, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Málið hefur verið unnið í samstarfi við Europol og hollensk lögregluyfirvöld.


Tengdar fréttir

Sautján ára stúlka í gæsluvarðhaldi

Mæðgur sitja nú í gæsluvarðhaldi eftir tilraun til stórfellds smygls. Stúlkan er barn samkvæmt lögum en vegna náinna tengsla sakborninga þykir ekki rétt að senda hana í sérstakt úrræði á vegum barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×