Íslenski boltinn

Voru búnar að vinna 19 heimaleiki í röð í Pepsi-deildinni | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik Stjörnunnar og Selfoss í gær.
Úr leik Stjörnunnar og Selfoss í gær. Vísir/Pjetur
Íslandsmeistarar Stjörnunnar töpuðu í gær fyrsta heimaleik sínum í Pepsi-deild kvenna í 996 daga eða frá því í september 2012.

Meistaraflokkar Stjörnunnar, karla og kvenna, voru einnig búnir að spila 43 leiki í röð í Pepsi-deildinni án þess að tapa sem er Íslandsmet eða alla leiki síðan að Stjörnukonur töpuðu í fyrstu umferðinni í fyrra.

Selfoss mætti á Samsung völlinn í gærkvöldi og vann 2-1 sigur en Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði sigurmarkið á 68. mínútu leiksins.

Stjörnuliðið var fyrir þennan leik búið að vinna 19 heimaleiki í röð í Pepsi-deildinni eða alla leiki sína frá því að liðið tapaði 3-1 á móti ÍBV 4. september 2012.

Þetta gerir tveggja ára, átta mánaða og 24 daga sigurganga liðsins á Samsung vellinum en markatalan í þessum 19 sigurleikjum í röð var 76-5, Stjörnunni í vil.

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði mark Stjörnunnar í tapleiknum í gær og hún skoraði líka eina mark liðsins í tapinu á móti ÍBV haustið 2012. Það var hinsvegar ekki nóg fyrir Garðabæjarliðið að þessu sinni en Harpa hafði skoraði eina markið í síðasta heimaleik Stjörnunnar á undan þessum.

Það er hægt að sjá mörkin úr leiknum hjá Sporttv-mönnum með því að smella á þennan tengil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×