Erlent

Voru ár í óbyggðum: Enginn lét þátttakendur vita að hætt var við að sýna þættina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svekkjandi.
Svekkjandi. Mynd/Channel 4
Þátttakendur í nýstárlegum breskum raunveruleikaþætti sneru aftur til byggða nýverið eftir ár í óbyggðum. Þátturinn var hins vegar tekinn af dagskrá eftir fjóra þætti, en enginn sagði þátttakendunum frá því.

Alls héldu 23 þátttakendur til óbyggða í skosku hálöndunum á síðasta ári til þess að taka þátt í raunveruleikaþættinum Eden sem framleiddur var af Channel 4 í Bretlandi.

Áttu þátttakendur að byggja upp sjálfbært samfélag án þess að nýta sér tækni eða nútíma verkfæri. Þættirnir áttu að ná yfir heilt ár en fljótlega eftir að fyrsti þátturinn var sýndur fóru vinsældir hans að dala.

Svo fór að aðeins fjórir þættir, sem náðu yfir fjóra mánuði, voru sýndir og var þátturinn tekinn af dagskrá. Svo virðist þó sem að þátttakendur hafi ekki fengið að vita af því og var haldið áfram að framleiða þáttinn, jafnvel þó að hann væri ekki lengur á dagskrá.

Framleiðslan virðist þó ekki hafa gengið áfallalaust fyrir sig því í frétt Guardian segir að tíu af 23 þátttakendum hafi hætt í miðju kafi vegna innbyrðis deilna, afbrýðissemi og svengdar.

Tökur hófust í mars á síðasta ári og sneru þátttakendurnir sem eftir voru aftur til byggða fyrir skömmu.

Í frétt Guardian segir að þátttakendur hafi ekki fengið aðgang að fréttum á meðan á tökum stóð og því má leiða líkur að því að hinir sömu sem eftir voru hafi snúið aftur í töluvert breytta heimsmynd, enda Donald Trump orðinn Bandaríkjaforseti og Bretland á leið út úr Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×