Skoðun

Vor á hlutabréfamarkaði

Sigríður Hrund Guðmundsdóttir skrifar
Nú hafa flest félög í Kauphöllinni birt ársuppgjör fyrir árið 2014 og aðalfundir standa yfir þessa dagana. Það er einkum áhugavert að sjá hvað arðgreiðslur skráðra félaga hafa aukist mikið nú á milli ára. Mörg félög hafa sett sér arðgreiðslustefnu og eru það jákvæðar fréttir. Félögin greiða þó út mismikinn arð og fer það eftir eðli rekstrar hjá hverju fyrirtæki fyrir sig, vaxtarmöguleikum og framtíðarhorfum.

Alltof mörg rekstrarfélög hér á landi fyrir hrun greiddu lítinn sem engan arð og nýttu þess í stað afrakstur starfseminnar til þess að fjárfesta í alls óskyldri starfsemi sem leiddi til þess að stjórnendur misstu fókusinn á grunnrekstri með hörmulegum afleiðingum. Vonandi erum við búin að læra af reynslunni.

Kröfur um arðgreiðslur

Almennir fjárfestar á þroskuðum hlutabréfamörkuðum gera kröfu um arðgreiðslu þeirra fyrirtækja sem þeir fjárfesta í. Það gefur þeim m.a. möguleika á stöðugum tekjum sér og sínum til framfærslu án þess að þurfa að selja á misgóðu gengi. Þeir sem gagnrýna þetta segja að fjárfestar sem þurfa stöðugt tekjuflæði ættu frekar að fjárfesta í skuldabréfum eða þá að selja hlutabréfin þegar þeir þurfa pening. Aftur á móti gefa þau fyrirtæki sem greiða reglulega út arð ákveðin skilaboð til fjárfesta um stöðugan rekstrargrundvöll og góða stjórnarhætti. Sagan hefur einnig sýnt að fyrirtæki sem hafa ekki greitt út arð í gegnum árin fá jákvæða athygli þegar þau svo loks ákveða að greiða út arð og öfugt.

 

Er arðgreiðslustefna og aukning arðgreiðslna íslenskra hlutafélaga þroskamerki? 

Fjárhagsstaða skráðra félaga er sterk um þessar mundir og það gefur augaleið að rekstrarfélög haldi sig við þann rekstur sem viðkomandi félög hafa sýnt fram á að hafa náð góðum tökum á og skilar hagnaði. Ef aukið fjármagn myndast í rekstri þessara fyrirtækja sem er ekki nauðsynlegt til eðlilegra fjárfestinga og rekstrar þeirra, liggur beinast við að því sem umfram er sé skilað til hluthafa í formi arðs og kaupum á eigin bréfum fremur en að stjórnendur, með stuðningi meirihlutaeigenda, finni sér ótengda fjárfestingarkosti eða fari í fjárfestingar sem eru mun áhættusamari en sá rekstur sem fyrir hendi er. 

Með öðrum orðum, skráð félög sem halda sig við það sem þau kunna best og gera mjög vel, styrkja hlutabréfamarkaðinn til muna.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×