Erlent

Vopnuð átök milli gengja í Stokkhólmi

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Morðalda gengur nú yfir Stokkhólm. Lögreglan þar hefur beðið um aðstoð.
Morðalda gengur nú yfir Stokkhólm. Lögreglan þar hefur beðið um aðstoð. NORDICPHOTOS/AFP
Lögreglan í Stokkhólmi hefur beðið um aðstoð frá öðrum lögregluumdæmum í Svíþjóð vegna vopnaðra átaka milli glæpagengja í borginni. Átök eru milli sex glæpagengja í norðurhluta borgarinnar og sex í suðurhlutanum. Það sem af er þessu ári hafa átta manns verið skotnir til bana í 17 skotárásum og 14 hafa særst, samkvæmt frétt sænska sjónvarpsins.

Að undanförnu hefur handsprengjum verið fleygt mörgum sinnum að fasteignum og bílum. Sænska sjónvarpið hefur það eftir fulltrúa Stokkhólmslögreglunnar að glæpagengin séu í góðu sambandi við vopnasala á Balkanskaga sem útvegi þeim handsprengjur. Fjöldi skotvopna er í umferð og nýlega hefur lögreglan lagt hald á 17 Kalashnikov-riffla.

Lögreglan í Stokkhólmi rannsakar nú alls 47 morð og 57 morðtilraunir. Talið er að í mörgum tilfellum séu morðin í tengslum við fíkniefnaviðskipti auk þess sem um hefndaraðgerðir sé að ræða. Lögreglan rannsakar jafnframt önnur afbrot í Stokkhólmi sem tengjast glæpagengjum. Um er að ræða 436 alvarleg afbrot, eins og til dæmis fjárkúgun og mannrán.

Liðsauki mun berast frá Gautaborg vegna morðöldunnar í Stokkhólmi. Gautaborgarlögreglan hefur mikla reynslu af átökum glæpagengja undanfarin ár. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×