Erlent

Vopnin streyma til Sýrlands og Jemen

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Uppreisnarmenn Hútí-hreyfingarinnar í Jemen hefja vopn sín á loft í höfuðborginni Sana.
Uppreisnarmenn Hútí-hreyfingarinnar í Jemen hefja vopn sín á loft í höfuðborginni Sana. Fréttablaðið/EPA
Stórfelldur vopnaflutningur hefur átt sér stað undanfarin fjögur ár frá átta austurevrópskum ríkjum til Mið-Austurlanda. Stjórnvöld þessara átta ríkja hafa samþykkt vopnasöluna, en viðskiptin nema samtals um 1,2 milljörðum evra eða 160 milljörðum króna.

Þetta fullyrða blaðamenn á vefmiðlunum BIRN og OCCRP, sem hafa verið að rannsaka þessi vopnaviðskipti undanfarið ár. Þeir hafa eftir sérfræðingum að þessi viðskipti séu næstum örugglega ólögleg.

Löndin átta eru Króatía, Tékkland, Serbía, Slóvakía, Búlgaría, Rúmenía, Bosnía-Hersegóvína og Svartfjallaland. Kaupendur hafa tekið við vopnunum í Sádi-Arabíu, Jórdaníu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Tyrklandi.

Talið er að mikið af þessum vopnum hafi svo verið flutt áfram til Sýrlands, þar sem heiftarleg borgarastyrjöld hefur kostað nokkur hundruð þúsund manns lífið, og líklega hátt í hálfa milljón. Einnig leikur grunur á því að eitthvað af þessum vopnum hafi borist til Jemens, þar sem einnig hefur geisað langvinn og harðvítug borgarstyrjöld.

Frá þessu er skýrt á fréttavef breska dagblaðsins The Guardian og vísað í grein á og ítarupplýsingar á occrp.org.

Rannsóknin er söggð byggð á upplýsingum úr vopnaútflutningsskýrslum, skýrslum Sameinuðu þjóðanna, skráningu flugferða og vopnasölusamningum. Einnig var rætt við fulltrúa stjórnvalda í Króatíu, Tékklandi, Svartfjallalandi, Serbíu og Slóvakíu. Þeir sögðu allir að staðið sé við allar alþjóðlegar skuldbindingar, sem ríkin hafi gengist undir.

Hins vegar er haft eftir Bodil Valero, sænskum þingmanna á Evrópuþinginu, að vopnasölulönd þessi ættu að skammast sín: „Ríki sem selja vopn til Sádi-Arabíu eða Mið-Austurlanda og norðanverða Afríku vanda sig ekki við áhættumat og brjóta því lög bæði Evrópusambandsins og sín eigin landslög.”

Fram kemur að vopnasala frá þessum löndum í Mið- og Austur-Evrópu til ríkja í Mið-Austurlöndum hafi verið sáralítil þar til árið 2012, þegar hún jókst skyndilega, en þá var borgarastyrjöldin í Sýrlandi tekin að magnast. Stórtækust voru þessi viðskipti á árinu 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×