Skoðun

Vont frumvarp

Arna Guðmundsdóttir skrifar
Frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu er afleitt. Nauðsynlegt er að taka það til rækilegrar endurskoðunar. Og í því ferli er vonandi að samráð verði haft við lækna en slíkt var ekki gert á meðan þessi frumvarpsdrög urðu að veruleika. Sérfræðingar frá velferðarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Sjúkratryggingum Íslands sáu einir um smíðina.

Í fyrsta lagi ber að nefna að þakið sem sett er á útgjöld hvers sjúklings er ekki fjármagnað með auknu framlagi ríkisins heldur viðbótarkostnaði annarra sjúklinga. Með öðrum orðum: Þeir sem minna eru veikir borga meira en fyrr til þess að fjármagna sjúkrakostnað hinna sem verr eru settir. Þeir sem ekkert eru veikir leggja ekkert fram aukalega. Kostnaður sem fer upp fyrir árlegt hámark er ekki greiddur af samfélaginu í heild sinni heldur ákveðnum hópi þess. Sá hópur telur um 120 þúsund manns og þar af er um þriðjungur, eða 40 þúsund manns, lífeyrisþegar.

Í annan stað ber að nefna tilvísanakerfið eða þjónustustýringuna sem lagt er til að verði á nýjan leik allsráðandi í aðgengi fólks að læknisþjónustu. Í sjálfu sér þarf það ekki endilega að vera vont fyrirkomulag en þegar vonlaust er að núverandi fjöldi heimilislækna geti annað álaginu og þegar vandséð er í hverju sparnaðurinn á að vera fólginn er eðlilegt að staldra við.

Markmið breytinganna er að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað sjúklinga. Á sama tíma hafa tugþúsundir manna engan heimilislækni af þeirri einföldu ástæðu að þeir eru ekki fáanlegir. Þess vegna er löng bið eftir viðtali við heimilislækni en sem betur fer hefur beint aðgengi að sérfræðilæknum verið nokkuð gott á flestum sviðum og munar þar mest um þjónustu sérgreinalækna í einkarekstri.

Öngþveiti

Talið er að heimilislæknar þurfi að vera að lágmarki um 30% af heildarfjölda lækna til að tilvísanakerfi borgi sig en hér á landi eru þeir 16,4%. Sem dæmi um öngþveitið sem myndast á heilsugæslunni með tilkomu þessara breytinga má nefna að komur til barnalækna árið 2015 voru um 109.000. Tilgangurinn er að spara sjúklingum komugjöld sem nema innan við eitt þúsund krónum fyrir hverja heimsókn til barnalæknis. Koma á heilsugæslustöð kostar hið opinbera hins vegar um 9.000 krónur og ef hún endar með tilvísun til sérfræðilæknis greiðir ríkið til viðbótar um 10.000 krónur. Erfitt er að sjá hvernig þetta fyrirkomulag sparar fjármuni og einnig hvað gerist þegar bankað er upp á með veikt barn og bið eftir tíma hjá heimilislækni er jafnvel talin í vikum.

Tilvísanakerfinu er m.a. ætlað að tryggja ódýrara aðgengi að sérfræðiþjónustu. Hin hliðin á þeim peningi er sú að þeir sem vilja sleppa undan biðinni eftir að hitta heimilislækninn geta, mögulega gegn hærra gjaldi, farið beint til sérfræðilæknis. Hinir efnameiri geta þannig keypt sér forgang. Það er þvert á vilja þjóðarinnar sem lítur á jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem grundvallaratriði í íslensku velferðarsamfélagi.

Krafan um fyrstu komu til heilsugæslu er stundum augljós lykkja á leið sjúklinga. Heimsókn til kvensjúkdómalæknis þarf ekki að byrja á viðtali við heimilislækni. Ekki frekar en til dæmis ferð til tannlæknis eða augnlæknis. Oft er ástæðulaust að neyða almenning til heimsóknar á heilsugæslustöð til þess eins að fá uppáskrift fyrir hið augljósa: Sérfræðilækni.

Í frumvarpið vantar alla umfjöllun um það hvort tilvísun eigi að vera gefin út vegna ákveðinnar sjúkdómsgreiningar eða á nafn ákveðins sérfræðings, sérgrein sérfræðings, undirsérgrein sérfræðings eða starfsstöð sérfræðinga. Engin umfjöllun er heldur um það hver gildistími tilvísunar eigi að vera eða hvort sjúklingur hafi einhver úrræði ef honum er neitað um tilvísun. Allt þetta er í fullkominni óvissu en tilvísanakerfi skal keyrt í gegn án umræðu eða samráðs við þá sem best þekkja til.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 26. maí.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×