Innlent

Vonsvikin börn í Smáralind: Lína langsokkur mætti ekki á litlu jólin

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Börnin biðu spennt við sviðið í Smáralind í gær en misskilningur olli því að Lína kom ekki.
Börnin biðu spennt við sviðið í Smáralind í gær en misskilningur olli því að Lína kom ekki. Vísir
Fjölmörg börn biðu spennt eftir Línu langsokk í Smáralind í gær en auglýst hafði verið að hún myndi skemmta þar á litlu jólunum klukkan 18. Misskilningur olli því hins vegar að Lína mætti ekki.

„Ég einfaldlega hélt að þetta væri klukkan 20. Þetta var því bara leiðinlegur misskilningur. Ég var búin að bíða eftir þessu allan daginn og hlakkaði mikið til. Mér þykir þetta því alveg ömurlega leiðinlegt allt saman,“ segir Ágústa Eva Erlendsdóttir, sem leikur Línu langsokk, í samtali við Vísi. Hún segist vonast til að geta komið sem fyrst í Smáralind til að bæta börnunum þetta upp.

Guðrún Margrét Örnólfsdóttir, markaðsstjóri Smáralindar, tekur undir með Ágústu Evu og segir leiðinlegt að þessi misskilningur hafi komið upp.

„Þetta er nú ekki hennar stíll og henni og okkur finnst auðvitað alveg svakalega leiðinlegt að þetta skuli hafa komið upp á,“ segir Guðrún í samtali við Vísi.

„Okkur þykir mjög leiðinlegt að einhverjir gestir okkar hafi jafnvel gert sér sérstaka ferð í húsið og farið þar af leiðandi fýluferð," bætir Guðrún við.

Foreldrar og börn fengu ekki að vita hvers vegna Lína kom ekki en þeim var tilkynnt klukkan 18:15 að ekkert yrði af skemmtuninni. Guðrún segist ekki hafa náð í Ágústu Evu og því einfaldlega ekki vitað hvað hafði komið upp á henni. Hún hafi því ekki getað gefið börnum og foreldrum neinar skýringar.

Guðrún segir ekki liggja fyrir hvenær að Lína muni koma í Smáralind en farið verði í það á næstu dögum að finna tíma sem hentar.

„Við hlökkum bara til að sjá sem flesta þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×