Innlent

Vonleysi á leigumarkaði

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Soffía Guðnýjardóttir, tæplega fimmtug kona sem hefur leitað að húsnæði í sjö mánuði, segist óska þess að það væri til hjólhýsahverfi í Reykjavík, þar sem hún gæti búið út af fyrir sig.

Hún hefur reynt að leita að íbúð í Kópavogi, þar sem hún á rétt á sérstökum húsaleigubótum, en ekki haft erindi sem erfiði. Hún segir engan vilja leigja öryrkja og hvað þá öryrkja sem hafi misst íbúðina sína á uppboð eins og hún.

Hlutskipti margra höfuðborgarbúa sem nú um stundir, þurfa að treysta á leigumarkaðinn, er að búa í kössum og fá að halda til hjá vinum og ættingjum uppá náð og miskunn.

„Ég er með góða vinnu, háskólamenntun og móðir fjögurra ára drengs,“ segir Sigrún Thordarson, einstæð móðir sem starfar sem leikskólakennari.

Hún býr inni á vinum og segist ekki hafa efni á húsnæði við núverandi aðstæður enda ástandið kaótískt og leigan svimandi há. Hún segist hafa verið lengi á leigumarkaði og oft hafa flutt en aldrei fyrr verið óörugg um hvort hún fái yfirhöfuð þak yfir höfuðið.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður velferðarnefndar Alþingis telur að orð og athafnir fari ekki saman þegar kemur að ástandinu á leigumarkaði:

„Það þarf að byggja upp almennan leigumarkað, þar sem fólk getur búið um lengri tíma við öryggi og til þess þarf stofnstyrki frá ríkinu og nýtt húsnæðisbótakerfi, þar sem eigendur og leigjendur eru jafnsettir. Það er búið að setja yfir áttatíu milljarða millifærslu til heimila sem eiga sína eign, á meðan sitja leigjendur óbættir hjá garði.“

Hún segir ekkert sjáanlegt um að það eigi að breyta þessu. Þingið hafi ekki fengið nein frumvörp og þess sjái ekki stað í fjárlagafrumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×