Innlent

Vonlaus staða ungs fólks á Íslandi

Jakob Bjarnar skrifar
Það kemur Gunnari Smára ekki á óvart að ungt fólk hafni gamalgrónum stjórnmálaflokkum.
Það kemur Gunnari Smára ekki á óvart að ungt fólk hafni gamalgrónum stjórnmálaflokkum.
Gunnar Smári Egilsson blaðamaður situr úti í Frakklandi og reiknar og reiknar og hefur nú komist að því, með því að rýna í tölur frá Hagstofunni, að ungt fólk hefur farið miklu verr út úr Hruninu en aðrir aldurshópar. Staða þess er reyndar vonlaus, sé litið til útreikninga Gunnars Smára.

Í gær birti Gunnar Smári grein þar sem hann telur það stappa nærri sturlun af ráðamönnum þjóðarinnar að tala um að staða almennings sé með besta móti – það standist enga skoðun og nú beinir hann sjónum sínum að kjörum ungs fólks í grein sem hann birtir á bloggi sínu.

Ungu fólki haldið frá á vinnumarkaði

Gunnar Smári segir að ungt fólk hafi tapað mestu á Hruninu, talsvert meiru en þeir sem eru miðaldra og eldri: „Ef við skoðum tekjur fólks á aldrinum 25 til 39 ára samkvæmt úttekt Hagstofunnar á skattaskýrslum frá 2007 til 2013; kemur í ljós að þessi aldurshópur þurfti að þola meira fall í atvinnutekjum eftir Hrun en aðrir hópar. Atvinnutekjur ungs fólks á þessum aldri drógust saman um 26 prósent  frá 2007 til 2013 á meðan atvinnutekjur fólks á aldrinum 40 til 49 ára drógust saman um 15 prósent og fólks á aldrinum 50 til 66 ára um 15 prósent einnig. Atvinnutekjur fólks 67 ára og eldri jukust á sama tíma um 4 prósent. Hrunið fékk eldra fólk til að fresta starfslokum og vera lengur á vinnumarkaði.“

Gunnar Smári segir ungt fólk ekki komast inn á vinnumarkaðinn, því var frekar sagt upp vegna minni starfsreynslu og laun ungs fólks voru lækkuð meira en annarra. „Hrunið lék ungt fólk á aldrinum 25 til 39 ára svipað og ungmenni 24 ára og yngri. Atvinnutekjur ungmenna drógust líka saman um 26 prósent frá 2007 til 2013.“

Ungt fólk situr eftir í tekjum

Og svo áfram sé vitnað í grein Gunnars Smára segir þar að samdráttur í atvinnutekjum ungs fólks eftir Hrun „var svo mikill að segja má að því hafi verið varpað aftur á síðustu öld. Á verðlagi dagsins voru meðal atvinnutekjur ungs fólks á aldrinum 25 til 39 ára samkvæmt skattaskýrslum tæplega 402 þúsund krónur á mánuði 2013. Það er aðeins 4 þúsund krónum hærra en þessi aldursflokkur hafði í atvinnutekjur árið 1997. Þessi sautján ár sem Hagstofan hefur skoðað hafa því ekki skilað ungu fólki neinum kjarabótum. Fólk sem er 39 ára í dag getur horft aftur til þess tíma þegar það var 22 ára og séð að ungt fólk er meira og minna enn með sömu tekjurnar. Á sama tíma hafa atvinnutekjur yngra miðaldra fólks, fólks á fimmtugs aldri, hækkað um 20 prósent og atvinnutekjur eldra miðaldra fólks, fólks á milli fimmtugs og ellilífeyrisaldurs, hækkað um 25 prósent.“

Ungt fólk illa svikið af eldri kynslóðum

Gunnar Smári segir, í grein sinni sem er ítarleg en þar er jafnframt farið yfir eignastöðu ungs fólks í samanburði við aðra hópa, það fyrirliggjandi að samfélagið hafi þannig svikið ungt fólk um þær kjarabætur sem aðrir aldursflokkar náðu fram í góðæristímum fyrir aldamótin og í aðdraganda Hrunsins og sem því tókst að verja í kreppum og hrunum þess á milli. „Og munurinn er mikill. Fyrir ungt fólk með meðaltekjur síns aldurshóps gera þetta 100 til 125 þúsund krónur á mánuði, 1,2 til 1,5 milljón krónur á ári, sem það hefði í tekjur í dag ef það hefði haldið í við sér eldra fólk. Það munar um minna. Einkum á erfiðum tímum. Um aldamótin voru atvinnutekjur ungs fólks á aldrinum 25 til 39 ára 74 prósent af atvinnutekjum yngra miðaldra fólks (40-49 ára) en þær eru í dag ekki nema 61 prósent af launum yngra miðaldra fólks. Um aldamótin voru atvinnutekjur ungs fólks á aldrinum 25 til 39 ára 85 prósent af atvinnutekjum eldra miðaldra fólks (50-66 ára) en eru í dag ekki nema 68 prósent af launum eldra miðaldra fólks.“

Öldin og samfélagið, þar sem hinir eldri ráða för, hafa svikið ungt fólk á atvinnumarkaði. Annað hvort kemst það ekki að eða vinnur fyrir sífellt lægri laun en miðaldra og eldra fólk.

„Árið 2013 var staðan sú að meðal atvinnutekjur ungs fólks voru 402 þúsund krónur á mánuði á meðan meðal atvinnutekjur yngra miðaldra fólks voru 656 þúsund krónur og meðal atvinnutekjur eldra miðaldra fólks 588 þúsund krónur á mánuði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×