Lífið

Vönduð tónlist og bandarísk matarhefð

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sigurlaug Gísladóttir, betur þekkt sem Mr. Silla, kemur fram.
Sigurlaug Gísladóttir, betur þekkt sem Mr. Silla, kemur fram. vísir/daníel
Tónlistar- og matarhátíðin KEX Köntrí, sem fram fer á Kexi Hosteli, hefst í dag og stendur yfir helgina. Um er að ræða árlega hátíð sem er ávallt haldin í kringum þjóðhátíðardag Bandaríkjanna, 4. júlí, og er boðið upp á tónlist sem er undir sterkum áhrifum frá bandarískri þjóðlagatónlist.

Venjan hefur verið að bandarískt tónlistaratriði troði upp á hátíðinni og áður hefur tónlistarfólk á borð við Lambchop og Morgan Kane komið fram ásamt einvalaliði íslensks tónlistarfólks. Í ár verður tónlistin eingöngu íslensk og eru tónlistaratriðin einstaklega vegleg í ár.

Hljómsveitin Lights on the Highway kemur fram á hátíðinni og verða þetta þeirra fyrstu tónleikar í nokkur ár. Tónlistarkonan Mr. Silla mun flytja nokkra vel valda kántrístandarda í bland við nokkur frumsamin lög. Þá ætlar KK, sem er einn ástsælasti tónlistarmaður okkar Íslendinga, einnig að koma fram.

Hátíðinni verður slaufað með miklum bravúr þegar KEX Köntrí All Stars koma fram á sjálfan þjóðhátíðardaginn. KEX Köntrí All Stars er húshljómsveit Kex og er skipuð þeim Ingibjörgu Elsu Turchi, Óskari Kjartanssyni, Tómasi Jónssyni og Erni Eldjárn ásamt einvalaliði söngvara sem eru þau Arnar Ingi Ólafsson, Elín Ey, Lilja Björk Runólfsdóttir og Snorri Helgason.

Matseðillinn á Sæmundi verður í sparifötunum og verður tileinkaður bandarískri matarhefð og á matseðlinum verður m.a. hinn landsfrægi frelsisborgari, kjúklingaleggir, svínarif og svalandi drykkir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×